Staða kjarasamningsviðræðna Læknafélags Íslands og ríkisins

Síðustu mánuði hefur samninganefnd LÍ fundað sjö sinnum með samninganefnd ríkisins, sem hefur boðið skammtímasamning til 12 mánaða með blöndu af prósentuhækkun og krónutöluhækkun, líkt og varð niðurstaðan í samningum á almennum markaði í lok síðasta árs.

Samninganefnd LÍ metur stöðuna þannig að samningur sem byggi eingöngu á fyrrnefndum launahækkunum yrði ólíklega samþykktur af læknum og því sé ekki hægt að vísa honum í kosningu. Er ástæðan áhyggjur sem læknar hafa af stöðu og þróun heilbrigðiskerfisins og vanmönnuðu starfsumhverfi lækna, sem búa víða við óhóflegt vinnuálag á dagvinnutíma auk þess sem þeim ber skylda samkvæmt kjarasamningi til að taka þær vaktir sem á þá eru settar til viðbótar við fulla dagvinnu. Slíkt starfsálag á læknum gerir íbúum landsins æ erfiðara að fá lausn vandamála sinna með tímabærum hætti, en einnig getur það haft áhrif á öryggi sjúklinga.

Samninganefnd LÍ hefur því leitast við að koma inn vissum ákvæðum um breytingar á inntaki kjarasamningsins þar sem hann er forsenda starfsskipulags, starfsumhverfis og mönnunar heilbrigðisstofnana. Þau mál hafa hins vegar ekki hlotið framgang í samningsviðræðunum þrátt fyrir ítarlegar og langar umræður þar um.

Samninganefnd LÍ telur að frekari frestun á því að byrja að gera nauðsynlegar breytingar, aðrar en grunnlaunahækkun, muni einungis auka vanda heilbrigðiskerfisins og gera hann þar með enn erfiðari úrlausnar í næstu kjarasamningsviðræðum. Slíkt er áhyggjuefni og hefur samninganefnd LÍ því vísað kjaradeilu sinni og ríkisins til ríkissáttasemjara, eins og þegar hefur verið skýrt frá.

Samninganefnd LÍ hefur þegar, líkt og samninganefnd ríkisins, átt einhliða fund með ríkissáttasemjara. Fyrsti sameiginlegi samningafundur samningsaðila með ríkissáttasemjara var haldinn í gær 23. maí 2023 og voru þar sett upp næstu skref í viðræðum aðila.