Segir óásættanlegt að Landspítalanum sé haldið í spennitreyju

„Læknaráð Landspítala skorar á stjórnvöld að endurskoða fyrirhugaðan niðurskurð á fjárveitingum til spítalans,“ segir í nýrri ályktun stjórnar Læknaráðs. „Niðurskurður fjárveitinga er ávísun á minni og lakari þjónustu og mun auk þess rýra öryggi sjúklinga. Læknaráð Landspítala telur slíkt óásættanlegt.“

Læknaráð bendir á að Landspítalinn sé flaggskip íslenskrar heilbrigðisþjónustu. „Það er óásættanlegt að halda Landspítalanum í stöðugri spennitreyju niðurskurðar og draga þannig úr möguleikum spítalans til að takast á við þau verkefni sem almenningur ætlast til.“

Læknaráð segir að niðurskurður til sparnaðar sé óskynsamlegur, sérstaklega á þeim tíma þegar alvarlegur kórónuveirufaraldur gengur yfir heimsbyggðina „með tilheyrandi auka kostnaði.“

Þorbjörn Jónsson er formaður læknaráðs Landspítala. 

Mynd/Læknablaðið

Hér fyrir neðan má lesa ályktunina í heild.

 

Landspítalinn  –  þjóðarsjúkrahúsið okkar 

Landspítalinn er flaggskip íslenskrar heilbrigðisþjónustu, er háskólasjúkrahús og aðalsjúkrahús landsins lögum samkvæmt. Landspítala ber að veita sérhæfða sjúkrahúsþjónustu fyrir alla landsmenn auk almennrar þjónustu fyrir íbúa höfuðborgarsvæðisins. Starfsmenn Landspítalans annast kennslu í grunn- og framhaldsnámi, veita sérfræði- og framhaldsmenntun í ýmsum greinum, auk þess sem viðamikil vísinda- og fræðastörf eru stunduð innan veggja spítalans.  

Sameining stofnana, tilfærsla verkefna til spítalans, fólksfjölgun og vaxandi aldur þjóðarinnar hefur aukið umfang starfseminnar á liðnum árum. Sem endastöð í heilbrigðiskerfinu verður sjúklingum og flóknum vandamálum ekki vísað frá Landspítala.   

Þrátt fyrir þetta berast enn á ný fregnir af því að fjárveitingavaldið hyggist skerða fjárveitingar til Landspítalans á næsta ári. Misvísandi tölur hafa verið birtar í fjölmiðlum um þennan niðurskurð, nefndar hafa verið tölur á bilinu frá 400 milljónum upp í 4,3 milljarða. Af framansögðu er ljóst að niðurskurður til sparnaðar er  óskynsamlegur og sérstaklega á þeim tíma þegar alvarlegur kórónuveirufaraldur gengur yfir heimsbyggðina með tilheyrandi auka kostnaði. Það er óásættanlegt að halda Landspítalanum í stöðugri spennitreyju niðurskurðar og draga þannig úr möguleikum spítalans til að takast á við þau verkefni sem almenningur ætlast til.   

Læknaráð Landspítala skorar á stjórnvöld að endurskoða fyrirhugaðan niðurskurð á fjárveitingum til spítalans. Niðurskurður fjárveitinga er ávísun á minni og lakari þjónustu og mun auk þess rýra öryggi sjúklinga. Læknaráð Landspítala telur slíkt óásættanlegt.