Rannsóknalæknar segja stjórnvöld reyna að fyrra sig ábyrgð

„Stjórn félags íslenskra rannsóknalækna telur að skýrsla heilbrigðisráðherra um breytingar á skipulagi og framkvæmd skimunar fyrir krabbameini í leghálsi sé tilraun stjórnvalda til að firra sig ábyrgð og gera lítið úr þeirri slæmu stöðu sem þetta mikilvæga heilbrigðismál hefur ratað í.“ Þetta segir í ályktun sem félagið hefur sent frá sér.

Stjórn Félags íslenskra rannsóknalækna gerir athugasemdir í átta liðum. Hún segir ljóst að undirbúningur breytinganna hafi verið ónógur, tíminn of skammur og ákvarðanir ekki allar teknar á faglega traustum grunni. Stjórnin telur að meginábyrgðin á þessu máli liggi hjá heilbrigðisráðherra og þeim aðilum sem ráðuneytið hefur valið sér til ráðgjafar.

Stjórnin segir að skýrsluhöfundurinn geti tæplega talist óháður. Hann hafi ekki leitað, svo vitað sé, allra upplýsinga um málið. Ekki komi fram í skýrslunni að fagaðilar hafi verið því afhuga að senda sýni úr landi.

„Skýrslan átti að svara því hvort breytingarnar hefðu áhrif á öryggi skimunar, m.a. vegna aðgengis, flutnings og samskipta milli landa. Þessari spurningu er á engan hátt svarað í skýrslunni,“ segir í ályktuninni.

Hér má lesa ályktunina í heild:

 

 

Ályktun frá stjórn Félags íslenskra rannsóknalækna

Þann 25. febrúar 2021 óskuðu Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, Hanna Katrín Friðriksson og 24 aðrir þingmenn eftir skýrslu frá óháðum aðila um breytingar á skipulagi og framkvæmd skimunar fyrir krabbameini í leghálsi. Í atkvæðagreiðslu 2. mars 2021 samþykkti þingið með 49 samhljóða atkvæðum að fela heilbrigðisráðherra að láta gera skýrslu um málið og hafa samráð við þingflokkana um val á þeim sem vinna skyldi skýrsluna.

Það var ekki fyrr en 10. maí, um það leyti sem fyrrgreind skýrsla átti að vera tilbúin, sem heilbrigðisráðherra tilkynnti að Haraldur Briem, fyrrum sóttvarnalæknir, yrði skýrsluhöfundur. Valið var ekki í samráði við þingflokkana. Óskað var eftir framlengdum tímafesti á skilum skýrslunnar til Alþingis. Þann 11. júní var skýrslunni loks skilað, þingskjal 1734 ‒ 560. mál. Vegna þess hve seint skýrslan barst fékkst hún ekki rædd á Alþingi fyrir þinglok.

Stjórn félags íslenskra rannsóknalækna telur þessa skýrslu ófullnægjandi og gerir eftirfarandi athugasemdir:

1. Skýrsluhöfundur getur tæplega talist óháður þar sem hann gegndi embætti ritara skimunarráðs og faghópa þess og tók þátt í umræðum að álitsgerðum þessara ráðgefandi aðila. Þar áður var hann sóttvarnalæknir og þar með undirmaður þáverandi landlæknis, Birgis Jakobssonar, sem nú er pólitískur aðstoðarmaður Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra. Því er ljóst að varla er hægt að halda því fram að skýrsluhöfundur sé óháður í þessu máli.

2. Við gerð skýrslunnar leitaði höfundur ekki, svo vitað sé, eftir upplýsingum frá Landspítalanum, Krabbameinsfélaginu eða sérgreinafélögum lækna.

3. Í skýrslunni er sagt að Landspítalinn hafi gert fyrirvara vegna frumurannsókna á leghálssýnum og því hafi Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins leitað eftir samvinnu við erlendar rannsóknastofur. Sá fyrirvari sem vísað er til kemur fram í bréfi yfirlæknis meinafræðideildar Landspítala frá 12. ágúst 2020 þar sem segir meðal annars svo: ”. . . við teljum ekki ástæðu til að óska eftir að sinna þessari rannsóknarstarfsemi.”

Rétt er ítreka að á þessum tímapunkti (sumarið 2020) lá ekki opinberlega fyrir ákvörðun um að flytja frumurannsóknir frá Krabbameinsfélagi Íslands og yfirlæknir meinafræðideildarinnar vissi ekki af umræðum þess efnis. Hann taldi því ekki rétt að sækjast eftir rannsóknum sem hafði verið vel sinnt af Krabbameinsfélaginu um margra áratuga skeið. Á fundi með forsvarsmönnum heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, þann 2. september, sagði yfirlæknir meinafræðinnar síðan að deildin myndi leitast við að taka að sér verkefnið ef eftir því væri leitað. Þetta var síðan ítrekað í svarbréfi spítalans til heilsugæslunnar í nóvember 2020 með þeim fyrirvörum að spítalinn þyrfti að ráða til sín sérhæft starfsfólk og leigja húsnæði undir þessa starfsemi.

4. Í beiðni þingmanna um skýrslu heilbrigðisráðherra er farið fram á upplýsingar um afstöðu einstakra aðila til þess að flytja greiningar á leghálssýnum úr landi. Þessari spurningu er svarað með tilvísun í skimunarráð sem reiknaði með að rannsóknir á leghálssýnum yrðu gerðar á Landspítalanum og notast yrði við skimunarleiðbeiningar frá Svíþjóð eða Danmörku. Hvorki er minnst á álit meirihluta né álit minnihluta fagráðs um leghálsskimanir. Álit verkefnastjórnar um breytingar á skimunum er ekki heldur nefnt í þessu samhengi. Fjölmargir fagaðilar og almennir borgarar hafa mótmælt því að sýnin séu send úr landi. Þetta hefur komið fram í ótal blaðagreinum, bréfaskriftum til heilbrigðisráðuneytisins og hópundirskriftum til ráðherra en ekkert af þessu kemur fram í skýrslunni.

5. Þingmenn spurðu sérstaklega um aðgengi að sýnum. Þessu er svarað þannig í skýrslunni: "Aðgengi að sýnum, ef horft er til niðurstaðna úr rannsóknum, ætti að vera öllum þar til bærum aðilum auðvelt enda niðurstöður færðar í sjúkraskrá og skimunarskrá þar sem persónuverndarsjónarmiða er gætt."

Hér er rætt um aðgengi að rannsóknarniðurstöðum. Því virðist vera um misskilning að ræða þar sem spurningin snérist um sýnin en ekki svörin. Við allar rannsóknir er nauðsynlegt að geta tekið sýnið upp aftur til að endurtaka rannsóknina eða gera á því nýja og ýtarlegri rannsókn. Slík endurskoðun, hvort sem er frumuskoðun eða HPV mæling, verður flókin þegar sýnið er varðveitt í rannsóknarstofu í öðru landi og engin formleg samskiptaleið er á milli Landspítalans eða kvensjúkdómalækna og rannsóknarstofunnar í Hvidovre. Meginstoð í gæðaeftirliti vegna skimunar fyrir leghálskrabbameini felst í því að samræmi sé á milli frumustroks og vefjasýnis. Reynist svo ekki vera þarf að endurskoða frumustrokið. Með því að senda frumustrokin úr landi er klippt á þennan mikilvæga þátt í gæðaeftirliti.

6. Í skýrslunni er í alllöngu máli fjallað um greiningarmistök sem urðu á rannsóknastofu Krabbameinsfélags Íslands. Þetta erfiða mál kom upp í júlí 2020, en samkvæmt bréfi ráðuneytis til Krabbameinsfélags Íslands, sem dagsett var 5. júní 2020, var þá þegar búið að taka ákvörðun um flutning verkefnisins til annarrar stofnunar. Í skýrslunni virðast þessi greiningarmistök vera notuð til þess að réttlæta ákvörðun sem þegar hafði verið tekin. Slíkt er auðvitað fráleitt.

7. Skýrslan átti að svara því hvort breytingarnar hefðu áhrif á öryggi skimunar, m.a. vegna aðgengis, flutnings og samskipta milli landa. Þessari spurningu er á engan hátt svarað í skýrslunni. Til að mynda kemur það hvergi fram hversu viðkvæmt það er að breyta þurfi íslenskum kennitölum í dönsk auðkennisnúmer og síðan aftur til baka þegar niðurstaða rannsókna liggur fyrir. Frá upphafi skipulagsbreytinganna hefði verið hægt að framkvæma HPV greiningar innanlands með stuttum svartíma og um leið hefði verið komist hjá þessari öryggisógn. Svo virðist sem skýrsluhöfundur geri sér ekki fulla grein fyrir því að Landspítalinn hafði um lengri tíma séð um HPV-veirugreiningar fyrir Krabbameinsfélag Íslands á sýnum teknum við leghálsskimanir og hafði svartíminn að jafnaði verið minna en ein vika.

8. Heilbrigðisráðuneytið, og ráðgjafar þess, hafa með yfirlýsingum sínum um fagleg málefni gert lítið úr sérfræðiþekkingu íslenskra rannsóknalækna, sem hafa sótt þjálfun og sérfræðimenntun til alþjóðlega vel metinna rannsóknastofa á stærri sjúkrahúsum erlendis.

Skýrsluhöfundur gerir ráð fyrir að þeir meinafræðingar sem eru með gilt starfsleyfi á Íslandi séu of fáir til að sinna skimunarsýnum frá leghálsi til lengri tíma, enda séu fimm þeirra á sjötugsaldri. Undanfarið hefur verið ágæt nýliðun inn í hóp lækna með sérmenntun í meinafræði. Greinin er jafnframt vel mönnuð af aðstoðarlæknum, sem og deildarlæknum í sérnámi utanlands. Þessi ályktun skýrsluhöfundar virðist því úr lausu lofti gripin og var ekki borin undir starfstétt meinafræðinga.

Stjórn félags íslenskra rannsóknalækna telur að skýrsla heilbrigðisráðherra um breytingar á skipulagi og framkvæmd skimunar fyrir krabbameini í leghálsi sé tilraun stjórnvalda til að firra sig ábyrgð og gera lítið úr þeirri slæmu stöðu sem þetta mikilvæga heilbrigðismál hefur ratað í.

Það er ljóst að undirbúningur breytinganna var ónógur, tíminn of skammur og ákvarðanir ekki allar teknar á faglega traustum grunni. Stjórn Félags íslenskra rannsóknarlækna telur að meginábyrgðin á þessu máli liggi hjá heilbrigðisráðherra og þeim aðilum sem ráðuneytið hefur valið sér til ráðgjafar.

Reykjavík 18. júní 2021

Stjórn Félags íslenskra rannsóknalækna,

Anna Margrét Jónsdóttir, formaður (á mynd sem fylgir fréttinni)

Ísleifur Ólafsson, ritari

Þorbjörn Jónsson, meðstjórnandi