Óvænt atvik í heilbrigðiskerfinu

Á dagskrá Læknadaga í dag (22.mars) var málþing Læknafélags Íslands um óvænt atvik í heilbrigðiskerfinu og meðferð þeirra út frá sjónarhóli lækna og heilbrigðisstofnana. Málþingið var vel sótt og augljóst að málefnið brennur á læknum. Fram kom að læknar kalla eftir því að farið verði í úrbætur á meðferð óvæntra atvika án tafar og að rannsóknarnefnd atvika í heilbrigðisþjónustu verði sett á stofn til að tryggja faglega nálgun við rannsókn á atvikum af þessu tagi. Stytta þarf málsmeðferðartímann með því að efla þær stofnanir sem að meðferð málanna koma, enda gífurlega íþyngjandi að þurfa jafnvel að bíða árum saman eftir endanlegri niðurstöðu. Tryggja þarf stuðning við heilbrigðisstarfsfólk sem eru aðilar að alvarlegum atvikum, bæði lögfræðilegan og sálrænan, og verklag við slíkan stuðning þarf að vera skýrt. Einnig þarf að stórefla forvarnir, handleiðslu og heilsueflingu fyrir heilbrigðisstarfsfólk, m.a. í fyrirbyggjandi tilgangi, og til að auðvelda starfsfólki að mæta því daglega álagi sem margt þess býr við. Að lokum þarf að hafa öryggi sjúklinga og gæði þjónustu að leiðarljósi í allri meðferð óvæntra atvika í heilbrigðiskerfinu, en ekki leit að blórabögglum.

Meðfylgjandi mynd er tekin af framsögufólki og fundarstjóra:
Frá vi.: Dögg Pálsdóttir, Steinunn Þórðardóttir, Ólafur Þór Ævarsson, Gunnur Helgadóttir og Anna Björg Jónsdóttir