Öldrunarlæknar vilja framtíðarsýn á Landspítala

 „Í umfjöllun undanfarnar vikur um málefni Landakotsspítala hafa komið fram athugasemdir sem bent gætu til þess að vandamál tengd starfseminni leysist með nýjum Landspítala. Þetta er því miður ekki svo,“ segir í ályktun frá Félagi íslenskra öldrunarlækna um framtíð öldrunarlækninga á Landspítala. 

Félagið bendir á að þrátt fyrir ítrekaðar ábendingar meðal annars öldrunarlækna á síðustu tveimur áratugum vegna hönnunar nýs spítala á Hringbrautarlóðinni sé ekki gert ráð fyrir starfsemi öldrunarlækningadeilda. Það bendir einnig á ða samkvæmt mannfjöldaspá Hagstofunnar muni fjöldi Íslendinga eldri en 70 ára rúmlega tvöfaldast á næstu 30 árum, úr rúmlega 35.000 2020 í 75.641 (miðspá) árið 2050. Hlutfallslega mest aukning verði í elstu aldurshópunum.

„Þörf er á breiðri nálgun til að mæta þörfum vaxandi hóps eldra fólks. Fjölbreyttar lausnir í heilsueflingu, heimaþjónustu og endurhæfingu utan sjúkrahúsa eru nauðsynlegar ásamt áframhaldandi uppbyggingu hjúkrunarheimila. Forvarnir og aðgengi að greiningarvinnu áður en komið er í óefni eru mikilvæg og getur samstarf heimaþjónustu, heilsugæslu og öflugrar göngudeildar öldrunarlækninga leikið þar stórt hlutverk,“ segir í ályktuninni.

„Ekkert af þessu mun þó koma í veg fyrir að aldraðir þurfi að leita sjúkrahúsa í bráðum veikindum. Bráð veikindi hjá eldri einstaklingum með marga samverkandi sjúkdóma einkennast gjarnan af afturför á fjölmörgum sviðum, versnun líkamlegrar starfsemi, tímabundinni versnun á vitrænni getu, næringarvanda og færniskerðingu sem nær langt út fyrir ástæðu eða meðferð hinna bráðu veikinda. Sérgreinaskipting eins og tíðkast hefur á sjúkrahúsum undanfarna áratugi hentar illa þörfum fjölveikra aldraðra.“

Félagið bendir á að nútíma bráðasjúkrahús þurfi að geta mætt þörfum þessa hóps með þverfaglegri nálgun og sérhæfingu öldrunarlækninga og viðeigandi endurhæfingu í kjölfar veikinda. 

„Það er misskilningur að síður sé þörf á svokallaðri hátækninálgun í sjúkrahúsþjónustu eldri einstaklinga. Greiður aðgangur að nútíma myndgreiningarrannsóknum, lífeðlisfræðilegum rannsóknum og nálægð við aðrar sérgreinar nýtist þessum hópi ekki síður en öðrum til að greina undirliggjandi vanda og auðvelda rétta einstaklingsbundna meðferð,“ segir þar.

„Félag íslenskra öldrunarlækna kallar eftir stefnu um framtíð öldrunarlækninga á Landspítalanum. Sömuleiðis að framtíðarsýn sé um að húsnæði og þjónusta tengd nýjum spítala þjóni þörfum vaxandi fjölda aldraðra sem þangað munu leita.“

Ályktunin var samþykkt á aðalfundi FÍÖ, 19. nóvember 2020. Ólafur Samúelsson er formaður FÍÖ og hefur sent forstjóra Landspítala, framkvæmdastjórn Landspítala, forsvarsmönnum nýs Landspítala (Hringbrautarverkefnið), heilbrigðisráðuneytinu, fjölmiðlum og Læknafélagi Íslands ályktunina.

Mynd/Læknablaðið