Nýtt skipulag Læknafélags Íslands og nýstofnað Félag sjúkrahúslækna

Dögg Pálsdóttir, lögfræðingur LÍ fjallaði um skipulag félagsins fyrr og nú í síðasta tölublaði Læknablaðsins. Þar kemur m.a. fram að stofnað hefur verið nýtt félag, Félag sjúkrahúslækna sem er hagsmunafélag lækna sem starfa á sjúkrahúsum og heilbrigðisstofnunum.

“Niðurstaða vinnunnar sem kynnt var á vormánuðum 2017 var að viðhalda fulltrúaformi félagsins. Lagt var til að svæðafélögin yrðu ekki lengur aðildarfélög enda eru þau orðin fámenn. Lagt var til að framvegis yrðu aðildarfélög LÍ fjögur: Félag almennra lækna (FAL), félag stofulækna, Félag heimilislækna (FÍH) og félag sjúkrahúslækna. Þá var lagt til að framvegis yrðu í stjórn LÍ tveir fulltrúar frá hverju aðildarfélagi, formaður hvers félags og annar kosinn á aðalfundi viðkomandi félags. Formaður LÍ yrði kosinn sérstaklega í rafrænni kosningu. Allt gekk þetta eftir. Lagabreytingar í samræmi við tillögur vinnuhópsins voru lagðar fram á aðalfundi LÍ 19. og 20. október 2017 og samþykktar einróma. Vegna skipulagsbreytinganna hefur nú verið stofnað nýtt aðildarfélag LÍ, Félag sjúkrahúslækna (FSL). Læknafélag Reykjavíkur (LR) hefur breytt lögum sínum og mun framvegis einkum sinna hagsmunum lækna sem starfa að hluta eða öllu leyti sjálfstætt. Önnur aðildarfélög hafa gert nauðsynlegar lagabreytingar til að lög þeirra fullnægi skipulagsbreytingunum.”

Hér má lesa nánar um skipulag LÍ fyrr og nú