Ný stjórn Fræðslustofnunar

Ný stjórn Fræðslustofnunar Læknafélags Íslands var skipuð á fundir stjórnar félagsins þann 29. júní 2020. Í henni eiga sæti auk formannsins Reynis Arngrímssonar erfðalæknis, Berglind Bergmann, sérnámslæknir,  Nanna Sigríður Kristinsdóttir heimilislæknir, Helga Ágústa Sigurjónsdóttir, lyflæknir og klínískur prófessor og Runólfur Pálsson forstöðulæknir og prófessor. Hann er jafnframt er formaður vinnuhóps Læknafélagsins um starfsþróun og símenntunlækna. 

Ólafur Már Björnsson augnlæknir og Arngrímur Vilhjálmsson sérnámslæknir og formaður Læknafélags Akureyrar óskuðu eftir því að ganga úr stjórn. Þeim er þakkað framlag þeirra til félagsmála lækna og störf í þágu Fræðslustofnunar. 

Stjórn Læknafélagsins ákvað að jafnframt að málefni og hlutverk Fræðslustofnunar yrðu tekin til umfjöllunar á næsta starfsári, en nú fer fram víðtæk stefnumótunarvinna á vegum LÍ, sem lýtur að fag- og kjaramálum og persónulegri þjónustu félagsins við lækna. Lesa má meira um það í pistli formannsins sem birtist í nýútkomnu Læknablaðinu.

Fræðslustofnun lækna var sett á fót í september 1997.  Forveri Fræðslustofnunar var Námssjóður lækna. Hlutverk Fræðslustofnunar er að sjá um rekstur fræðslustarfsemi lækna og styrkja símenntun og fræðslustarf lækna. Læknadagar eru fyrirferðarmestir í starfsemi Fræðslustofnunar. Þetta er glæsileg ráðstefna sem hefur verið haldin í 13. viku vetrar og lýkur á bóndadegi. 

Fræðslustarfsemi lækna færðist í núverandi mynd 1995 og verður þess minnst á Læknadögum 2021 að um þessar mundir er aldarfjórðungur frá því að Læknadagar hófu göngu sína.