Niðurskurður á Landspítala

Almennur læknaráðsfundur þann 15. nóvember 2019 harmar að Landspítalinn skuli ítrekað vera þvingaður til þess að grípa til róttækra sparnaðaraðgerða sem munu væntanlega koma niður á þjónustu við sjúklinga. Aukin fjárþörf Landspítala á sér ýmsar orsakir svo sem aukið umfang þjónustu vegna nýrra verkefna, tilkomu nýrra lyfja auk vaxandi fólksfjölda. 

Þó ráðdeild sé nauðsynleg bendir læknaráð á að nægjanlegt fjármagn þarf að fylgja nýjum verkefnum sem Landspítala er úthlutað, en misbrestur hefur verið á því. Einnig þarf að fjármagna kjarasamninga með fullnægjandi hætti en það hljómar ankannalega að 4-5 ára gömlum kjarasamningum við lækna sé endurtekið kennt um hallarekstur Landspítala. 

Erlendar úttektir hafa endurtekið sýnt fram á verulega hagkvæmni í rekstri spítalans og arðsemi fyrir þjóðfélagið. 

McKinsey skýrslan sýndi fram á að mönnun lækna á Landspítala er minni en á erlendum samanburðarsjúkrahúsum og mikið álag er á læknum spítalans skv. nýlegri könnun Læknafélags Íslands. Því er mikilvægt að í komandi sparnaðaraðgerðum verði ekki þrengt að almennum starfsmönnum enda mun það óhjákvæmilega bitna á sjúklingum. Brýnt er að tryggja störf og góðar starfsaðstæður heilbrigðismenntaðs starfsfólks sem vinnur við meðferð og aðhlynningu sjúklinga en draga úr áherslu á stjórnunar- og skrifstofustörf. 

Læknaráð telur óásættanlegt að dregið verði úr fjárveitingum til byggingar nýs Landspítala. Frekar ætti að auka fjárveitingar og flýta framkvæmdum enda þolir ástandið enga bið.