Mikilvæg skilaboð til lækna og heilbrigðisstofnana um rétta notkun blóðhluta á tímum COVID

Erindi Embættis landlæknis, framkvæmdastjóra lækninga á Landspítala, framkvæmdastjóra lækninga á Sjúkrahúsinu á Akureyri, nefndar um blóðhlutanotkun, ráðgjafanefndar um fagleg málefni blóðbankaþjónustu, Læknafélags Íslands og Blóðbankans.

Á Íslandi eru árlega notaðar um 10.000 rauðkornaeiningar, 2.000 blóðflögueiningar og 2.000 blóðvökvaeiningar(plasma).

Í COVID-19 faraldri sem nú geisar um alla heimsbyggðina er mikilvægt að halda blóðbankaþjónustu starfhæfri til að tryggja öryggi sjúklinga sem þurfa á blóðinngjöf að halda.

Gera má ráð fyrir minni blóðsöfnun vegna veikinda og annarra forfalla blóðgjafa, álags á vinnumarkaði, aukinnar vinnu frá heimili, breytinga á flæði í þjóðfélaginu o.s.frv. Það er reynsla nágrannalanda okkar að söfnun blóðhluta geti minnkað umtalsvert í slíkum faraldri.

Til að mæta minnkuðu framboði á blóðhlutum er nauðsynlegt að læknar og aðrir sem taka ákvarðanir um notkun blóðhluta á heilbrigðisstofnunum hugi að því að draga úr blóðhlutanotkun eins og mögulegt er meðan á faraldrinum stendur. Mikilvægt er að blóðhlutar séu einungis notaðir þegar sjúklingur þarf nauðsynlega á þeim að halda í samræmi við klínískar leiðbeiningar um notkun blóðhluta á Landspítala. Með samstilltum aðgerðum er mögulegt að stuðla að starfhæfri blóðbankaþjónustu á óvissutímum og þannig tryggja öryggi sjúklinga um land allt.

Mikilvægt sjálfboðaliðastarf blóðgjafa er forsenda þess að geta veitt nútíma heilbrigðisþjónustu. Það er skylda heilbrigðisþjónustunnar að nýta ætíð með besta mögulega hætti þessa dýrmætu gjöf.
 

Alma Dagbjört Möller, landlæknir
Ólafur Baldursson, framkvæmdastjóri lækning, Landspítala
Sigurður E. Sigurðsson, framkvæmdastjóri lækninga, Sjúkrahúsinu á Akureyri
Kári Hreinsson, yfirlæknir, formaður nefndar um blóðhlutanotkun
Már Kristjánsson, yfirlæknir, formaður ráðgjafanefndar um fagleg málefni blóðbankaþjónustu
Sveinn Guðmundsson yfirlæknir Blóðbankans
Reynir Arngrímsson, læknir, formaður Læknafélags Íslands

 

Klínískar leiðbeiningar um blóðhlutanotkun (2. útgáfa 2012)