Metfjöldi vill í læknisfræði

Metfjöldi  hefur skráð sig í inntökupróf í læknisfræði við Læknadeild Háskóla Íslands. Alls munu 344 þreyta inntökuprófið og fjölgar um 21 milli ára. Prófið fer fram dagana 11. og 12. júní. 

„Sama próf er lagt fyrir alla þátttakendur og þeir sem standa sig best á prófinu eiga kost á að hefja nám,“ segir í frétt á vef Háskóla Íslands.

„Fjöldi þeirra sem hefur nám miðast við afkastagetu sjúkrahúsanna við verklega þjálfun nemenda. Í læknisfræði verða nú teknir inn 60 nemendur,“ segir þar.

Fram kemur að inntökuprófið hafi um árabil farið fram í húsnæði Menntaskólans við Hamrahlíð. „[E]n vegna framkvæmda þar fer prófið að þessu sinni fram í húsakynnum Háskóla Íslands. Inntökuprófið tekur tvo daga líkt og áður og samanstendur af sex tveggja tíma próflotum.“

Þau sem útskrifast úr læknisfræði í ár rita undir læknaeiðinn í húsakynnum Læknafélags Íslands þann 11. júní næstkomandi. Skiptir þá einu hvort þeir útskrifast hér heima eða erlendis.

Mynd/Læknablaðið

Sjá frétt á vef Háskóla Íslands.