LÍ gerir alvarlegar athugasemdir við fyrirætlanir stjórnvalda

Læknafélag Íslands gerir alvarlegar athugasemdir við þá fyrirætlan íslenskra stjórnvalda að ætla að endurskilgreina áhættumat sem alþjóðleg samstaða ríkir um og er viðmið í helstu nágrannalöndum okkar og grundvöllur sóttvarnaaðgerða innan Evrópska efnahagssvæðisins. Þetta kemur fram í umsögn félagsins um frumvarp til laga um breytingu á sóttvarnalögum og lögum um útlendinga (sóttvarnahús og för yfir landamæri).

LÍ leggur til að stuðst verði áfram við hinar alþjóðlegu skilgreiningar á áhættumati sem Evrópska sóttvarnastofnunin, European Centre for Disease Prevention and Control og að viðbragðsáætlun og úrræði við landamæri Íslands taki mið af því í reglugerðinni.

Þá leggur LÍ áherslu á að miðað skuli við að einstaklingar séu full bólusettir við mat á framgangi bólusetninga og slökunar á sóttvörnum innanlands og á landmærum.

„Lí telur vert að nefna að farsóttarfaraldrar lúta ekki óskhyggju og eiginleikar sýkils geta breyst skyndilega og því mikilvægt að sóttvarnayfirvöld, þegar um tilfelli alvarlegra farsótta er að ræða, hafi nægjanlega sveigjanlegar og fullnægjandi laga- og valdheimildir til að bregðast við aðsteðjandi vanda sem ógnað getur samfélaginu.“

Umsögn LÍ hefur þegar vakið athygli fjölmiðla. Kjarninn fjallar um málið hér. Ríkisútvarpið hér og MBL.is hér.

 

Svona hljómar umsögnin í heild sinni:

 

Efni: Frumvarp til laga um breytingu á sóttvarnalögum og lögum um útlendinga (sóttvarnahús og för yfir landamæri). Þingskjal 1267 – 747. mál, stjórnarfrumvarp.

Stjórn Læknafélags Íslands (LÍ) hefur fjallað um ofangreint frumvarp. LÍ tekur undir þau sjónarmið sem fram koma um tilefni og nauðsyn lagasetningarinnar, sem hluta af aðgerðum sem taldar eru nauðsynlegar í baráttunni við heimsfaraldur SARS-CoV2-veirunnar sem veldur COVID-19 sjúkdómnum.

LÍ gerir þó alvarlegar athugasemdir við þá fyrirætlan íslenskra stjórnvalda að ætla að endurskilgreina áhættumat sem alþjóðleg samstaða ríkir um og er viðmið í helstu nágrannalöndum okkar og grundvöllur sóttvarnaaðgerða innan Evrópska efnahagssvæðisins sbr. greinargerð með frumvarpinu. LÍ telur að í greinargerð með frumvarpinu komi ekki fram nægjanlegur rökstuðningur fyrir slíkum breytingum og leggur til að stuðst verði áfram við hinar alþjóðlegu skilgreiningar á áhættumati sem Evrópska sóttvarnastofnunin, European Centre for Disease Prevention and Control og að viðbragðsáætlun og úrræði við landmæri Íslands taki mið af því í reglugerðinni.

Hááhættusvæði (dökkrauður litakóði á korti ECDC) verði áfram skilgreind sem 500 tilfelli á 100.000 íbúa en ekki 1000 tilfelli og áhættusvæði (rauður litakóði á korti ECDC)150-500 tilfelli á 100.000 íbúa í stað 750 tilfella á 100.000 íbúa eins og lagt er til í greinargerðinni og fyrirhugaðar aðgerðir á landamærum styðjist við þau viðmið (https://www.ecdc.europa.eu/en/covid-19/situation-updates/weekly-maps-coordinated-restriction-free-movement)..

Þá leggur LÍ áherslu á að við mat á framgangi bólusetninga og slökunar á sóttvörnum innanlands og á landmærum skuli miðað við að einstaklingar séu full bólusettir og að ekki sé fullnægjandi að miða eingöngu við fyrri (aðra af tveimur) bólusetningu ef í lyfjalýsingu sé talin þörf á fleiri en einni gjöf á bóluefni. Bólusetning dregur úr áhættu á alvarlegum veikindum en upprætir ekki smit í öllum tilfellum að því best verður séð samkvæmt fyrirliggjandi gögnum. Ekki megi horfa fram hjá þeim möguleika við áætlagerð um afléttingu sóttvarna, ná umfangi heimsfaraldursins erlendis.

Lí telur vert að nefna að farsóttarfaraldrar lúta ekki óskhyggju og eiginleikar sýkils geta breyst skyndilega og því mikilvægt að sóttvarnayfirvöld, þegar um tilfelli alvarlegra farsótta er að ræða, hafi nægjanlega sveigjanlegar og fullnægjandi laga- og valdheimildir til að bregðast við aðsteðjandi vanda sem ógnað getur samfélaginu. Enda er ráð fyrir því gert eins og fram kemur í greinargerð frumvarpsins um samræmi frumvarpsins við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.

Virðingarfyllst,

f.h. stjórnar Læknafélags Íslands

Reynir Arngrímsson, formaður