Læknar lýsa álagi á Landspítala og segja frá samdrætti á þjónustunni

„Því miður hefur verið mikið álag á bráðamóttökunni í talsverðan tíma og nú hafa nokkrir læknar kosið að hætta störfum. Og þess vegna erum við í vandræðum með að ná að halda lágmarksmönnun sérfræðilækna á bráðamóttökunni í sumar,“ sagði Hjalti Már Björnsson yfirlæknir á bráðamóttöku Landspítalans í sjónvarpsfréttum RÚV í gær.

Þar var sagt frá því að meiri samdráttur verði á Landspítalanum í sumar en í fyrrasumar. Hjalti sagði að mönnun mætti vera betri.

„Við gerum allt sem við getum til að veita öllum fulla þjónustu sem þurfa að leita til deildarinnar. En við erum núna að vinna með framkvæmdastjórn Landspítala um að breyta verksviði. Þannig að læknar annarra deilda komi inn og taki meira af endurkomum og taki fyrr við þeim sjúklingum sem þurfa að leggjast inn á spítalann.“

Guðrún Dóra Bjarnadóttir benti á álagið á Landspítala í pistli í síðasta Læknablaði. „[D]aglega eru bæði „macro“ og „micro“ fundir um plássastöðu innan veggja spítalans. Flest starfsfólk man ekki þá tíð þegar Landspítali var ekki á óvissustigi – hvað svo sem það þýðir. Laust rúm á deild í meira en tvo tíma er jafnvel orðið þjóðsagnakennt fyrirbæri eins og skuggabaldur,“ ritar hún.

Starfsfólk er sett í þá ómögulegu stöðu að velja hver þarf mest á dýrmætu plássi halda og útskrifa þann sem er minnst veikur,“ segir hún. Upplifun starfsfólks sé að einungis þurfi að gera rétt svo nægilega mikið til þess að viðkomandi sé útskriftarfær og vonast síðan til að þetta reddist.

„Það væri óskandi að við bærum gæfu til að hætta að setja flæði í forgrunn fremur en velferð þjóðar,“ segir hún í lok pistilsins.

Mynd/Samsett/Skjáskot/Læknablaðið/RÚV

  • Frétt RÚV hér.
  • Pistill Guðrúnar Dóru hér.