Læknafélagið kallar eftir lögum sem halda

Læknafélag Íslands kallar eftir því að lagastoð fyrir ítrustu sóttvörnum verði tryggð. Alþingi verði að leiðrétta mistök sín og breyta lögunum til að sóttvarnir haldi. Þetta segir Reynir Arngrímsson, formaður Læknafélags Íslands, í kjölfar þess að Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu nú um páskana að ekki væri hægt að skikka fólk á farsóttarheimili í fimm daga við komu til landsins.

„Úrskurður héraðsdóms er alvarleg aðför að sóttvörnum landsins og úrræðum sem þarf að vera hægt að grípa til á óvissu- og hættutímum. Þ​á vekur athygli að dómari skuli ekki hafa talið ástæðu til að hafa dóminn fjölskipaðan með a.m.k. einn sérfræðing á sviði sóttvarna.“

Reynir segir Alþingi verða að tryggja að heilbirgðisyfirvöld hafi óyggjandi heimildir til aðgerða þegar alvarlegar farsóttir ganga. „Ljóst hefur verið um alllangt skeið að einstaklingar, ferðamenn og að einhverju leyti aðstandendur þeirra, sem hafa ekki virt sóttvarnartilmæli, hafa verið aðalveikleikinn í sóttvörnum landsins,“ segir hann.

Á heimsvísu hafi opinberar tilkynningar sýnt að ríflega 131 milljón hafi veikst og 2,8 milljónir látist af völdum COVID-19. „Samkvæmt tölum Amnesty International hafa yfir 17.000 heilbrigðisstarfsmenn látið lífið við störf sín í faraldrinum. Slíkt er óþekkt nema helst í stríði eða styrjöldum.“

Í Evrópu hafi 26 milljónir veikst og 610 þúsund látist eða tvöfaldur íbúafjöldi Íslands. „Í mörgum löndum skilgreindum sem dökkrauðum er nýgengi 500 tilfelli eða fleiri pr. 100.000 íbúa. Til samanburðar er nýgengistalan á Íslandi 25 en hækkandi, vegna smita tengdum skæðari afbrigðis af faraldrinum, sem brýnt er að stemma stigu við með öllum tiltækum ráðum,“ segir Reynir. „Góðum árangri er því ógnað vegna lagatæknilegra mistaka í meðförum Alþingis á sóttvarnarlögum.“

Sóttvarnalæknir hefur ákveðið að kæra niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur til Landsréttar. Reynir segir að vonandi verði niðurstöðunni hnekkt af æðra dómsstigi.