Læknafélagið biður forstjóra um að bæta læknum COVID-19-fjártjónið

Læknafélagið hefur sent forstjórum heilbrigðisstofnana bréf og óskað eftir því að þeir bæti heimilislæknum upp tekjuskerðingu sem læknarnir hafa orðið fyrir í kórónuveirufaraldrinum.

Bent er á að heimilislæknar, líkt og aðrir heilbrigðisstarfsmenn í framlínu, hafi tekið á sig talsverða áhættu á smiti.

Í bréfinu er þess óskað að læknarnir fái meðalgreiðslur síðustu tveggja mánaða fyrir COVID-19 faraldurinn. Bréfið, sem undirritað er af Reyni Arngrímssyni formanni félagsins og sent þann 20. maí, hljóðar svo:

„Læknafélag Íslands vill vekja athygli forstjóra heilbrigðisstofnana á því að í COVID-19 faraldrinum hafa margir heimilislæknar orðið fyrir talsverðri kjaraskerðingu vegna fækkunar samskipta sem sérstaklega er greitt fyrir.

Mikið hefur þó mætt á heimilislæknum í faraldrinum í tengslum við skipulag vinnulags, sýnatökur og umönnun skjólstæðinga í sóttkví og einangrun. Í störfum sínum hafa heimilislæknar, líkt og aðrir heilbrigðisstarfsmenn í framlínu, tekið á sig talsverða áhættu á smiti.

LÍ telur ekki forsvaranlegt að nauðsynlegar breytingar á vinnufyrirkomulagi og aukið álag vegna faraldursins komi niður á tekjum heimilislækna.

Fyrir liggur að nokkrar heilbrigðisstofnanir hafa þegar ákveðið að bæta heimilislæknum þessa tekjuskerðingu upp með því að greiða læknum sínum meðalgreiðslur síðustu tveggja mánaða fyrir COVID og lagt þær til grundvallar greiðslum til læknanna frá mars 2020 og ætla að gera það þar til starfsemi færist í fyrra horf.

LÍ leyfir sér að óska eftir því að allar heilbrigðisstofnanir taki upp þetta vinnulag til að bæta heimilislæknum upp framangreinda tekjuskerðingu.

Með von um jákvæð viðbrögð.“

 

Mynd/Læknablaðið/gag
Margrét Ólafía Tómasdóttir læknir og Guðmundur Ingi Sveinsson bílstjóri Læknavaktarinnar. Þau fóru í útköll vegna kórónuveirunnar fimmtudaginn 11. mars á sérútbúinni sendiferðabifreið Læknavaktarinnar til að sinna COVID-19 sjúkum og greina smit. Umfjöllun í Læknablaðinu