10. tölublað Læknablaðsins er komið út

Pétur Guðmann Guðmannsson réttarmeinafræðingur á Landspítala hefur krufið nærri 190 lík vegna óútskýrðra dauðsfalla hér á landi í ár, álíka mörg og krufin voru allt árið í fyrra. Þessum dauðsföllum fjölgar. Þetta kemur fram í 10. tölublaði Læknablaðsins sem komið er út.

Fjölmargar áhugaverðar greinar og fréttir eru í blaðinu. Gallsteinar prýða forsíðuna. Þar er einnig frétt um áhyggjur lækna af símenntun sinni. Reynir Arngrímsson, formaður Læknafélags Íslands, segir að félagið hafi óskað eftir því við spítalann að námsleyfi lækna fyrnist ekki á næstu misserum og að læknar sem breyti um vinnustað eða hætti í starfi 2020 fái að taka áunnið námsleyfi eða það verði greitt út við starfslok.

„Við veltum fyrir okkur hvort Landspítalinn neiti að auka sveiganleika í kringum námsleyfisréttindi lækna nú í faraldrinum til að spara fé fyrir spítalann.“

Valgerður Sigurðardóttir gigtarlæknir í Svíþjóð segir í viðtali við Læknablaðið heilsugæslulækna í Svíþjóð mæla þvagsýru hjá skjólstæðingum sínum of sjaldan. Eftirfylgni sé ábótavant og margir sjúklingar fái of litla lyfjaskammta. Valgerður er brautryðjandi í þvagsýrugigtarrannsóknum í Svíþjóð.

„Besta leiðin til að greina þvagsýrugigt er að stinga á liðinn og skoða hvort þvagsýrukristallar séu í liðvökvanum,“ segir hún. „Þvagsýrugigt er oftast meðhöndluð í heilsugæslunni hér í Svíþjóð og þar eru liðástungur sjaldan gerðar. Heimilislæknar búa við mikinn tímaskort og þeim þykir það flókið og erfitt. Þeir veigra sér við því en það er örugg leið til að greina sjúkdóminn.“

 

  • Lesið yfirlitsgrein um gallsteina og fylgikvilla þeirra hér.

  • Lesið ritstjórnargrein Þórólfs Guðnasonar um COVID-19 hér.

  • Lesið um fyrirætlanir heilsugæslunnar vegna leghálsskimana hér.

  • Sjáið minningu Maríu um Gunnar Mýrdal hér.

 

Sjá má efnisyfirlitið hér fyrir neðan:

Lesa má nýjasta tölublaðið hér.