„Kerfið er þanið og sjúkt“

„100% rúmanýting á Landspítala er ekki merki um góðan rekstur heldur aðgerðaleysi yfirstjórnar,“ segir Theódór Skúli Sigurðsson, svæfingalæknir á Landspítalanum og formaður Félags sjúkrahúslækna. Hann segir að nýting rúma á bráðasjúkrahúsi ætti að liggja á bilinu 85%-90%. Hvers vegna? „Það er almennt viðmið,“ segir hann. Bráðasjúkrahús þurfi að hafa svigrúm til að taka við sjúklingum. „Kerfið er þanið og sjúkt.“

Theódór hefur staðið í forsvari undirskriftarsöfnunar yfir 1.000 lækna sem skora á stjórnmálamenn og embættismenn á Íslandi að axla loksins þá ábyrgð sem þeim ber. Hann ásamt Steinunni Þórðardóttur, Berglindi Bergmann og Jóni Magnúsi Kristjánssyni afhentu Ástu Valdimarsdóttur, ráðuneytisstjóra, og Birgi Jakobssyni, fyrrum landlækni og nú aðstoðarmanni ráðherra, undirskriftir 985 lækna við anddyri heilbrigðisráðuneytisins í síðustu viku.

Í frétt Morgunblaðsins nú í morgun sagði Theódór: „Þó fjárveitingar til Landspítalans séu auknar sjáum við þess ekki stað. Því teljum við að hugarfarsbreytingu þurfi um rekstur spítalans. Læknar eru leiðtogar með hugmyndir og mikilvægt er að virkja þá til meiri áhrifa. Læknar eru langþreyttir og tilfinningin sú að ekki sé hlustað á sjónarmið okkar þegar varað er við hættulegu ástandi,“ sagði hann.

„Því miður virðist stefna stjórnvalda í heilbrigðismálum vera sú að gefnar eru út tilskipanir á efstu stöðum; skilaboð sem virðist eiga að fylgja umyrðalaust. Sjónarmið lækna hafa ekki skilað sér til stjórnvalda. Slíkt kann ekki góðri lukku að stýra,“ segir Skúli í Morgunblaðinu.

„Nærri lætur að hvert rúm á Landspítalanum sé fullnýtt alla daga og allt umfram hámarksnýtingu skapar hættu. Þegar sjúklingarnir stöðvast á bráðamóttöku stíflast kerfið og þá er Landspítalinn ekki starfhæfur. Meðferð á vel búnum sjúkrahúsum í dag tekur æ skemmri tíma og reynt er að útskrifa alla svo fljótt sem verða má. Veruleikinn er samt sá, að eftir aðgerðir á sjúkrahúsinu kemst fólk ekki í þá umönnun sem rétt er.“

Theódór Skúli sagði á Bylgjunni í morgun undirskriftirnar orðnar 1.055.

Mynd/Læknablaðið/Védís

 

  • Sjá úrdrátt úr Morgunblaðinu.
  • Sjá viðtal á Bylgjunni hér.
  • Sjá umfjöllun OECD um rúmanýtingu hér.