Læknablaðið er komið út

Aðalbjörg Björgvinsdóttir, formaður Félags íslenskra fæðinga- og kvensjúkdómalækna, hefur áhyggjur af mistökum í greiningarferli leghálssýna. Þetta kemur fram í glænýju júnítölublaði Læknablaðsins.

„Við höfum engin tök á að fylgja sýnunum eftir. Ef vafamál koma upp getum við ekki haft samband við rannsóknarstofuna því við höfum ekki aðgang að númerinu sem rannsóknarstofan hefur fyrir sjúklinginn,“ segir Aðalbjörg og lýsir því hvernig unnið hafi verið markvisst í gegnum árin að því að fækka milliliðum og þannig möguleikum á mannlegum mistökum við greiningarferli á lífsýnum. Nýja fyrirkomulagið sé í öfuga átt.

Fjöldi frétta, viðtöl og fræðigreina eru í nýja tölublaðinu. Meðal fréttanna er að Læknablaðið hefur nú samning Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins við danska sjúkrahúsið Hvidovre undir höndum með verði. Þar er ljóst að greiddar eru 145 danskar krónur fyrir greiningu á hverju leghálssýni til dönsku meinafræðideildarinnar og 2 danskar krónur aukalega fyrir geymslu í lífsýnabanka.

Víða má sjá merki undiröldu innan heilbrigðiskerfisins í blaðinu. Í viðtali við læknana Elías S. Eyþórsson og Gunnar Guðmundsson, sem á vordögum voru valdir vísindamenn Landspítala 2021, segir Gunnar að lyfjarannsóknir hafi horfið úr íslenskri vísindavinnu. Æ meira þrengi að læknum að stunda vísindi og umhverfið ólíkt því sem áður var.

Þá skrifar Salóme Arnardóttir, formaður Félags íslenskra heimilislækna, úr penna stjórnarmanna LÍ um stríðsþreytu/kulnun: „Nú ætla ég ekki að leggja að jöfnu læknisstarfið og stöðuga lífshættu stríðshrjáðra, en sumt getur vakið mann til umhugsunar. Það hefur áhrif á vinnugleði, atorku og þreytustig þegar við búum við sífelldan skort á fjárframlögum til heilbrigðiskerfisins,“ segir hún.

Loks svöruðu 8 stjórnmálaflokkar 9 spurningum Læknablaðsins sem snúa að stefnumarkandi ákvörðunum í heilbrigðisþjónustunni. Svörin verða birt í tölublöðunum fram að Alþingiskosningum 25. september næstkomandi. Svör við þremur spurningum eru í þessu tölublaði.

Fræðigreinin um míturlokurnar sem birt er í tölublaðinu hefur þegar vakið áhuga fjölmiðla. Morgunblaðið greinir frá í dag. Niðurstaða greinarhöfunda er að árangur míturlokuviðgerða vegna hrörnunartengds leka sé sambærilegur við árangur á stærri hjartaskurðdeildum erlendis. „Almennt farnast þessum sjúklingum ágætlega til lengri tíma þrátt fyrir að snemmkomnir fylgikvillar séu tíðir.“

Þá er grein Kristjáns G. Guðmundssonar læknis á Reykjalundi um fjölþætt svæðisbundið verkjaheilkenni. 

Tilfelli mánaðarins er um hrausta konu sem aldrei hafði reykt en leitaði endurtekið til læknis á þriggja mánaða tímabili vegna þurrs hósta, þyngslaverks fyrir brjósti og vægrar mæði. Sjá hér.

  • Sjáðu dag í lífi Guðrúnar Aspelund hér.
  • Viðtal við Guðrúnu Þuríði Höskuldsdóttur um skurðaðgerðir við offitu hér
  • Pistil Sigurðar Guðmundssonar um aldur hér
  • Blaðið í heild sinni má lesa hér