Jafningjastuðningur lækna

Ágætu kollegar.

Við stöndum frammi fyrir krefjandi verkefni. Það reynir á í störfum okkar um þessar mundir, hefur áhrif á samskipti, skipulag og starfsumhverfi. Við þurfum öll að breyta okkar daglegu rútínum. Tilvera okkar hefur tekið á sig breytta mynd í sviphendingu. Fréttir berast erlendis frá af miklu álagi á lækna. Á slíkum tímum er samstaða og umhyggja hvert fyrir öðru mikilvæg. 

Við læknar þurfum að standa reiðubúin og örugg frammi fyrir þessi verkefni. Spyrjum, æfum og þjálfum viðbrögð með samstarfsfólki við því ástandi sem kann að skapast. Verum viðbúin en jafnframt aðgætin. Skerpum á jafningjafræðslu og styðjumst við traust gögn og fyrirmæli á okkar vinnustað. 

Byggjum líka upp jafningastuðning. Birgum ekki inni áhyggjur okkar og hvernig álagið hefur áhrif á okkur og samstarfshópinn. Gleymum heldur ekki fjölskyldum okkar. Styðjum þær og upplýsum og umvefjum og veitum öryggi. Göngum jákvæð til starfa sem samhentur og samstilltur vel undirbúinn og þjálfaður hópur, þannig klárum við þetta verkefni eins og önnur krefjandi sem falla okkur í skaut sem læknar. 

Að lokum er minnt á átakið læknar styðja lækna og lýst er eftir fleiri kollegum sem væru reiðubúnir að aðstoða um þessar mundir, ekki hvað síst þeir sem eldri eru og reyndari úr hópi öldunga og hafa séð tímana tvenna. Þeir sem vilja bætast í þann hóp eru beðnir að láta okkur vita á lis@lis.is

Með félagskveðju.
Reynir Arngrímsson, formaður