Helga Ágústa Sigurjónsdóttir nýr ritstjóri Læknablaðsins

Helga Ágústa Sigurjónsdóttir læknir tekur við starfi ritstjóra og ábyrgðarmanns Læknablaðsins 1. desember n.k. Hún verður fyrsta konan í 106 ára sögu blaðsins til að gegna því.

„Ég hlakka til að taka við þessu nýja verkefni af afar hæfum forverum mínum og mun leitast við að gera gott blað betra. Læknablaðið hefur grundvallarhlutverk í miðlun vísinda í læknisfræði á Íslandi og er mikilvæg rödd lækna á Íslandi í öllu sem snertir heilbrigðismál,“ segir hún. Gaman verði að vinna að því að störf lækna hvar sem er innan heilbrigðiskerfisins verði sýnilegri.

Helga Ágústa er sérfræðingur í innkirtlalækningum og klínískur prófessor við Háskóla Íslands. Hún hefur rekið eigin lækningastofu um árabil ásamt því að starfa að innkirtlalækningum og lyflækningum á Landspítala. Hún lauk embættisprófi í læknisfræði 1991, stundaði framhaldsnám við Sahlgrenska sjúkrahúsið í Gautaborg og fékk viðurkenningu sem  sérfræðingur í almennum lyflækningum 1998 og innkirtlalækningum árið 2000. Hún lauk  doktorsprófi frá Gautaborgarháskóla 2002. Helga Ágústa er formaður félags um innkirtlafræði, varaformaður prófessoraráðs Landspítala og umsjónarlæknir með rannsóknarverkefnum sérnámslækna á lyflækningasviði. Stjórn LÍ óskar Helgu Ágústu velfarnaðar í komandi verkefnum.

Læknablaðið er gefið út af Læknafélag Íslands. Fráfarandi ritstjóra Magnúsi Gottfreðssyni eru færðar þakkir fyrir áralanga aðkomu að útgáfumálum félagsins.

„Mikilvægi blaðsins í mínum huga er óumdeilt, ekkert fagfélag á landinu kemst nálægt því að státa af jafn metnaðarfullum og öflugum miðli og Læknablaðið er. Það er að mínu mati til þess fallið að efla fagmennsku, stolt og samheldni innan stéttarinnar. Til þess að svo megi verða er ljóst að ritstjórn þarf áfram að vera sjálfstæð í störfum sínum. Ég treysti því að svo verði áfram með Helgu Ágústu Sigurjónsdóttur, sem tekur nú við starfi ritstjóra fyrst kvenna, en hún hefur verið einn af öflugustu talsmönnum blaðsins um árabil. Ég óska henni og viðtakandi ritstjórn velfarnaðar,“ segir Magnús á þessum tímamótum sem nú verða.

Aðrir í ritstjórn Læknablaðsins eru læknarnir Elsa B. Valsdóttir, Gerður Gröndal, Ingibjörg Jóna Guðmundsdóttir, Margrét Ólafía Tómasdóttir, Magnús Haraldsson og Sigurbergur Kárason.

Mynd/Læknablaðið