Fyrstu merkin um fæðingu tvöfalds heilbrigðiskerfis

„Nú þegar er farið að sjást í fyrstu merkin um að í fæðingu sé tvöfalt heilbrigðiskerfi á Íslandi þar sem fjármagn tryggir forgang,” segja 11 læknar í stjórn og samninganefnd Læknafélags Reykjavíkur í grein sem birtist í Fréttablaðinu í dag.

Tilefnið er fréttaþáttur Ríkisútvarpsins Kveikur frá síðasta þriðjudag undir fyrirsögninni „Veikur Kveikur“ og gagnrýna þeir umfjöllun um sjálfstætt starfandi sérfræðilækna og samningsleysi þeirra við ríkið: „Ekkert er eins fjarri læknum og að fara gegn hagsmunum sjúklinga sinna eða nota þá á nokkurn hátt sér til framdráttar.“

Þeir benda á að stoðirnar í heilbrigðiskerfinu séu þrjár; spítalarnir, heilsugæslan og stofur lækna á læknastöðvum „úti í bæ“. Stofulæknar taki á móti álíka mörgum læknisheimsóknum og Landspítalinn og Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins samanlagt.

„Það hlýtur að þykja athyglisvert að heimsóknin til sérfræðilæknis á stofu er ódýrust fyrir hið opinbera hvað heildarkostnað varðar. Stjórnvöld vilja þennan rekstur samt feigan og láta Sjúkratryggingar Íslands um framkvæmdina.“

Þeir gagnrýna fyrirsögn þáttarins á vefmiðli RÚV sem segir: „Læknar í einkarekstri vilja engin mörk“ og spyrja hvort það sé skrýtið? „Læknar mennta sig til að lækna - ekki suma heldur alla. Það er grundvallarskylda læknisins. Engin mörk – læknar vilja sinna öllum sem á þurfa að halda meðan ríkið vill mynda biðlista og biðraðir og takmarka aðgengi sjúklinga.“

Þeir spyrja hvort það sé glæpur að vilja veita sjúklingum hagkvæma þjónustu? Þeir segja: „Sjúklingaþjónusta er hvorki skurðgröftur né vegagerð. Sjúklingar eru af holdi og blóði og hafa lögbundin réttindi. Læknar standa fast við hlið þeirra og missa aldrei sjónar á mikilvægi góðs viðmóts, varfærni, alúðar og ítrustu fagmennsku.“

Greinin endar á orðunum sem dregin eru fram efst í þessari frétt: „Nú þegar er farið að sjást í fyrstu merkin um að í fæðingu sé tvöfalt heilbrigðiskerfi á Íslandi þar sem fjármagn tryggir forgang. Margsinnis hefur komið fram að þjóðin sé algjörlega sammála um það grundvallaratriði að allir eigi að hafa jafnan rétt til fyrsta flokks heilbrigðisþjónustu. Það besta sem við getum gert fyrir sjúklingana er að spyrna við fótum og tryggja það að stofureksturinn verði áfram einn af hornsteinum heilbrigðisþjónustunnar og ávallt til staðar fyrir fólkið í landinu. Vonandi mun Kveikur kveikja á mikilvægi þess einn góðan veðurdag. Annars er hann illa veikur.“

Greinina má lesa í heild sinni hér.

Mynd/Læknafélagið/Formaður Læknafélags Reykjavíkur

 

Greinarhöfundar eru í stjórn og samninganefnd Læknafélags Reykjavíkur.

Alma Gunnarsdóttir

Anna Björnsdóttir,

Brynhildur Ingvarsdóttir

Guðmundur Örn Guðmundsson

Guðmundur Rúnarsson

Kristján Guðmundsson

Magnús Baldvinsson

Ragnar Freyr Ingvarsson

Stefán Matthíasson

Tryggvi Helgason

Þórarinn Guðnason