Aðalfundur Læknafélags Íslands (LÍ) 2024 var haldinn í Kópavogi 1. nóvember sl. Aðalfundarfulltrúar voru 79 og mættu þeir flestir til fundarins. Heilbrigðisráðherra, Willum Þór Þórsson, ávarpaði aðalfundargesti og svaraði fjölda fyrirspurna. Þá ávarpaði Guðrún Aspelund sóttvarnarlæknir og starfandi landlæknir fundinn.
Í stjórn LÍ starfsárið 2024-2025 verða: Steinunn Þórðardóttir, formaður, Teitur Ari Theodórsson og Thelma Kristinsdóttir frá Félagi almennra lækna, Margrét Ólafía Tómasdóttir og Oddur Steinarsson frá Félagi ísl. heimilislækna, Magdalena Ásgeirsdóttir og Theódór Skúli Sigurðsson frá Félagi sjúkrahúslækna og Katrín R. Kemp Guðmundsdóttir og Ragnar Freyr Ingvarsson frá Læknafélagi Reykjavíkur. Stjórnin mun skipta með sér verkum á fyrsta stjórnarfundi eftir aðalfund.
Á aðalfundinum voru samþykktar níu ályktanir um málefni sem snerta heilbrigðismál. Þremur tillögum var vísað til stjórnar.
Ályktun um sérnámsgrunnsár lækna hvertur heilbrigðisráðuneytið til að gera samninga við okkar nágrannalönd um að þau viðurkenni sérnámsgrunnár lækna, sem tekið er á Íslandi. Sjá ályktun.
Ályktun um sérnám lækna fagnar þeim áföngum sem hafa náðst við uppbyggingu sérnáms lækna á Íslandi. Reynslan sýni að sérnámslæknar séu mikilvægur hlekkur í heilbrigðisþjónustu. Í ályktuninni eru sérgreinar lækninga og fagfélög sérgreina hvött til að þróa áfram sérnám á Íslandi, með það að markmiði að bjóða upp á fullt sérnám í fleiri sérgreinum. Sjá ályktun.
Ályktun um fjölskylduvænna starfsumhverfi skorar á stjórnvöld og heilbrigðisstofnanir að beita sér fyrir fjölskylduvænna vinnuumhverfi lækna. Til að koma í veg fyrir brottfall úr starfsstétt lækna sé nauðsynlegt að beita úrræðum af hálfu ríkis, sveitarfélaga og heilbrigðisstofnana. Vinna þurfi af fullri alvöru að betri vinnutíma lækna, enda hafi læknastéttin verið eftirbátur annarra starfsstétta hvað betri vinnutíma varðar. Jafnframt sé nauðsynlegt að beita úrræðum á vegum sveitarfélaganna til að tryggja börnum dagvistun svo læknar geti snúið aftur til starfa að loknu fæðingarorlofi. Sjá ályktun.
Ályktun gegn afnámi stöðunefnda lýsir eindreginni andstöðu við lagabreytingu sem ráðherrra heilbrigðismála hefur boðað um afnám stöðunefnda. Stöðunefndir gegni mikilvægu hlutverki. LÍ lýsi sig alfarið andvígt boðaðri lagabreytingu. Mikilvægt sé að ávallt fram fari faglegt mat á hæfi stjórnenda til að minnka líkur á geðþóttaráðningum og að fólk sem ekki er nægilega hæft verði ráðið í mikilvægar stjórnunarstöður í opinbera heilbrigðiskerfinu. Sjá ályktun.
Ályktun um að banna framleiðslu, dreifingu og innflutning til sölu á nikótínpúðum skorar á heilbrigðisráðherra að banna framleiðslu, dreifingu og innflutning til sölu á púðum með nikótíni. Sjá ályktun.
Ályktun um aðgerðir gegn auknu aðgengi að áfengi brýnir alla þingmenn til hispurslausra, markvissra og ákveðinna aðgerða strax, til að draga úr áfengistengdum skaða í íslensku samfélagi. Læknar sjái alvarlegar afleiðingar aukinnar áfengisdrykkju alla daga í sínum störfum. Stöðva þurfi þá þróun sem orðið hafi varðandi aukið aðgengi að áfengi, svo sem með netsölu og heimsendingu áfengis. Sjá ályktun.
Ályktun um ráðstöfun fjármuna Læknafélags Íslands sem félagið fékk endurgreitt vegna Lækningaminjasafns felur stjórn félagsins að stofna sjóð sem valið verði nafnið Lækningaminjasjóður Jóns Steffensen. Hlutverk sjóðsins verði að vinna að söfnun fræðaefnis um sögu læknisfræði á Íslandi, styrkja vísindarannsóknir á lækningaminjum, lækningasögu og heilbrigðissögu, framleiðslu kynningarefnis og uppsetningu sýninga um sögu læknisfræðinnar. Stjórn Læknafélags Íslands setji sjóðnum stofnskrá þannig að hann starfi samkvæmt lögum um sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagskrá, nr. 19/1988. Sjá ályktun.
Ályktun vegna rafrænna kerfa í heilbrigðisþjónustu ítrekar að verulega innspýtingu fjármuna og nútímavæðingu þurfi í úrbætur og/eða endurnýjun rafrænna kerfa sem unnið er með í heilbrigðiskerfinu. Ráðast þurfi í slíkar breytingar sem fyrst. Slíkt myndi auka öryggi sjúklinga, spara vinnu og fjármuni. Sjá ályktun.
Ályktun um öryggi á vinnustöðum lækna skorar á heilbrigðisyfirvöld og heilbrigðisstofnanir að tryggja öryggi lækna við vinnu sína. Gerð er sú krafa að læknum sem verða fyrir ofbeldi vegna starfa sinna verði tryggðar fullar bætur fyrir það tjón sem þeir kunna að verða fyrir. Sjá ályktun.
Læknafélag Íslands
Hlíðasmári 8, 201 Kópavogur - lis@lis.is
Afgreiðslutími
Mánudaga til fimmtudaga 9-16
Föstudaga 9-13