Fréttir af aðalfundi Alþjóðasamtaka lækna, WMA

Aðalfundur Alþjóðasamtaka lækna, WMA, var haldinn 26.-30. október 2020. Aðalfundinum var streymt enda í gildi ferðatakmarkanir um allan heim vegna Covid-19 faraldursins. Þegar svo er gengur ekki að hafa átta klukkutíma dagskrá á dag því taka þarf tillit til tímamunar. Þetta segir Jón Snædal, öldrunarlæknir sem gegndi formennsku í siðanefnd samtakanna um árabil og var forseti þeirra 2007 til 2008. Hann tók saman fundargerð sem nú er birt hér á vefnum:

Fundirnir voru því 3-4 tíma á dag, í kringum hádegið í Evrópu, að kvöldi í Asíu og seint að kvöldi í Nýja Sjálandi og Ástralíu. Á sama tíma var morgun í Ameríkulöndum og mjög snemma að morgni á vesturströnd Norður-Ameríku.

Fyrstu dagana voru vinnufundir og átti LÍ ekki aðild að þeim að þessu sinni. Undirritaður sótti fyrst og fremst aðalfundinn sjálfan þar sem öll málefni sem samþykkt hafa verið í fastanefndum fá endanlega afgreiðslu.

Hér fylgja nokkur atriði sem gætu verið áhugaverð fyrir LÍ og íslenska lækna.

  • Samþykkt var ályktun um lækna og heimsfaraldurinn með tillögu sem beinist gegn stjórnvöldum. Tillagan er í átta liðum og er m.a. hvatt til að tryggja nægar smitvarnir og nægt fjármagn og ennfremur að læknastéttin verði samþykkt sem “profession at risk” og þar með að smit hjá lækni sem vinnur við sjúklinga sé meðhöndlað sem atvinnusjúkdómur. Ályktunina má sjá hér.
  • Samþykkt var “Cordoba yfirlýsingin” um samband læknis og sjúklings en samtökin telja að ýmislegt trufli það árþúsunda ára gamla samband. Bent er á þrennt sem ógnar þessu sambandi; mikil áhersla á útgjaldaminnkun, ýmsar tæknilausnir og almennt minnkandi traust í samfélögum heims. Sjá má þessa ályktun á: https://www.wma.net/policies-post/wma-declaration-of-cordoba-on-patient-physician-relationship/
  • Endurskoðun Alþjóðlegra siðareglna lækna stendur yfir undir stjórn Þýska læknafélagsins. Haldnir hafa verið undibúningsfundir á nokkrum stöðum í heiminum (raunverulega eða á fjarfundi). Vinnan við endurskoðun og frekari fundir eru fyrirhugaðir og gert er ráð fyrir að þær verði lagðar fyrir næsta aðalfund til samþykktar. Núverandi reglur má sjá hér en vinnuplögg eru ekki aðgengileg.
  • Endurskoðuð var ályktun um notkun fósturfruma í vísindarannsóknum en það var LÍ sem setti það á dagskrá fyrir áratug og fékk samþykkt. Engar grundvallar breytingar voru gerðar á þessari stuttu ályktun en fyrri atriði útfærð og skýrð, sjá hér.
  • Samþykkt var harðorð ályktun um framkomu kínverskra yfirvalda í garð múslíma í Uighur héraði gegn ákafri andstöðu kínverska læknafélagsins, sjá hér. Eftir er að sjá hvort af því verða eftirmál en kínverska félagið hefur verið að styrkja stöðu sína innan WMA, hefur verið í stjórn samtakanna undanfarin tvö ár og er með rétt á stjórnarsetu fyrir næsta tímabil sem hefst vorið 2021.
  • Í tengslum við aðalfundinn voru sendar út tvær fréttatilkynningar um heimsfaraldurinn þar sem annars vegar er varað við fölskum fréttum um heimsfaraldurinn og hins vegar um að vísindin verði að vísa veginn í faraldrinum en ekki pólitíkin. Svo vill til að þá fyrri kynnti fráfarandi forseti WMA sem kemur frá Brasilíu og þá seinni nýr forseti WMA sem er frá Bandaríkjunum. Í báðum löndunum hafa stjórnvöld staðið sig með eindæmum slælega og er einmitt minnst á það í þessum fréttatilkynningum.
  • Tyrknesk yfirvöld hafa tilkynnt að þau hyggist leggja niður tyrkneska læknafélagið til að vernda sjúklinga fyrir hryðjuverkamönnum! Þau hafa auðvitað enga lögsögu yfir frjálsu félagi en það hindrar þau ekki frá slíkum fyrirætlunum því alltaf er hægt að nota lög gegn hryðjuverkum til að fangelsa, sekta og hindra á ýmsan hátt einstaklinga og félög. Það sem yfirvöldum er sérstaklega í nöp við er stuðningur félagsins við lækna sem sýndu þá ósvinnu að sinna fólki sem særðist í mótmælaaðgerðum gegn yfirvöldum. WMA styður heilshugar tyrkneska félagið og Norska félagið hefur í samvinnu við WMA sótt mörg réttarhöld gegn læknum þar í landi.
  • Nýr forseti WMA er Heidi Steinsmyren sem hefur verið formaður Sænska læknafélagsins undanfarin ár. Hún var ein í framboði. Hún tekur við haustið 2021 í eitt ár en ber fram að því heitið „tilvonandi forseti“ (President elect). David Barbe frá Bandaríkjunum verður forseti næsta árið og fráfarandi forseti er Miguel Jorges frá Brasilíu.

Samantekið í nóvember 2020 af Jóni Snædal, fulltrúa LÍ hjá WMA á fundinum.