Formannspistill — kjaramál lækna

Samningar lækna í LÍ og SKÍ hafa verið lausir í u.þ.b. 16 mánuði eða frá lokum febrúar 2019. Á þessu tímabili hafa fundir samningsaðila verið örfáir og ríkt biðstaða meðan niðurstaða fengist í breytt vinnu- og vaktatímafyrirkomulag á meðal opinberra starfsmanna. Loks hyllir undir að samningaviðræður við ríkið hefjist fyrir alvöru.

Samningaaðilar gengu frá samkomulagi í júní 2019 að fresta viðræðum yfir sumarmánuðina 2019 gegn eingreiðslu sem næmi mán

aðarlaunahækkunum skv. lífskjarasamningsviðmiðunum fram til ágústmánaðar og að gerð yrði ný viðræðuáætlun að afloknu sumarleyfi. Mál mjökuðust hins vegar lítið áfram í vetur. LÍ hefur því lagt til að vegna þessara viðbótartafa verði gert endurnýjað samkomulag um eingreiðslu fyrir liðið ár. Engin viðbrögð hafa borist frá ríkinu, enn sem komið er.

Eins og staðan er núna er ekkert sem bendir til að samningar náist í bráð. Læknar verða því að fara að huga að því hvort og þá hvernig knýja megi á um að ná samningum.

Meðan hættu- eða neyðarstigi er lýst yfir á heilbrigðisstofnunum eða í landinu hafa læknar talið sér ófært að beita sér til að knýja á um gerð kjarasamnings, heldur sett í forgang að bregðast við covid faraldrinum af einurð og ábyrgð. Enda er velferð og öryggi sjúklinga ætíð í fyrsta sæti hjá læknum. Það er hinsvegar umhugsunarefni að ríkið skuli með engum hætti hafa talið eftirsóknarvert að ná samningum við lækna.

Sumarleyfi fyrnast – njótum orlofsins

Eftir annasaman vetur og mikið álagstímabil hjá læknum er mikilvægt að læknar noti sumarleyfið til hvíldar, endurnæringar og að rækta fjölskyldulifið. Fram til þessa hafa læknar getað frestað töku orlofs á milli ára og stór hópur lækna þurft að gera það vegna erfiðleika við að taka allt sumarleyfið á sumartímanum. Ef horft er til kjarasamninga sem ríkið hefur gert að undaförnu þá geyma þeir allir ákvæði um að slíkar heimildir falli út og að allt orlof skuli tekið á yfirstandandi orlofsári. Í grundvallaratriðum er mikilvægt og jákvætt að taka út áunnin frí jafnóðum. Hjá læknum hefur það reynst afar erfitt í framkvæmd þar sem mönnun lækna er víðast í lágmarki yfir sumartímann og álag því mikið. Reynsla sýnir það. Margir læknar eiga uppsafnaðan frítökurétt og orlof. Mikilvægt er að læknar búi sig undir þessar breytingar og nýti nú um stundir sem mest af sínum áunna en ótekna orlofsrétti þannig að ekki komi til réttindamissis vegna orlofsfyrningar, verði samið um þær breytingar á orlofi sem önnur stéttarfélög hafa samið um.

Áherslur í kjarasamningum

Í skoðanakönnun LÍ 2018 kom fram að flestir læknar (80%) leggja áherslu á grunnkaupshækkanir og um helmingur vill aðgerðir til að draga úr álagi (47%). Um þriðjungur vill leggja áherslu á styttingu vinnuvikunnar (37%), hærra vaktakaup (30%) og hækkun lífeyrisréttinda (28%). Vegna styttri starfsævi lækna en flestra annarra starfsstétta hefur í gegnum tíðina verið greitt hærra hlutfall fyrir lækna í lífeyrissjóð. Á þessu hefur orðið breyting síðustu misseri þar sem hækkanir hafa orðið á greiðslum annarra á vinnumarkaði. Mikilvægt er að endurskoða þetta og tryggja á ný að læknar fái áfram hækkun á framlagi til síns lífeyris þar sem tekið er tillit til styttri starfsævi þeirra.

Sérnámslæknar og símenntun

Það er að mörgu að hyggja. Ekki verður horft fram hjá því að kjör almennra lækna eru óviðunandi og að aðlaga þarf kjarasamning LÍ að breytingum sem orðið hafa á starfsvettvangi þeirra með tilkomu framhaldsnáms og marklýsinga um skipulag og faglega starfsþróun. Skipulagt framhaldsnám og markviss þjálfun lækna til sérhæfingar á Íslandi er hluti af uppbyggingu og styrkingu innviðastoða

heilbrigðiskerfisins. Það kallar á að ákvæðin í kjarasamningnum fyrir þennan hóp séu tekin til endurskoðunar. Nú er rétti tíminn til þess enda verða þessir þættir að haldast hönd í hönd til að tryggja faglegar framfarir í þjónustu og eftirsóknarvert starfsumhverfi. Í samningum ríkisins við aðrar háskólastéttir eru ákvæði um framlög til starfsmenntunarsetra. Tímabært er að slíkt ákvæði komi einnig inn í kjarasamning lækna. Framfarir i læknavísindum og þekkingargrunnur lækna tvöfaldast á hverju fimm ára tímabili. Kröfur um stöðuga starfsþróun sérfræðilækna út starfsævina og viðhald réttinda fara vaxandi. Við þeirri þróun verðum við að bregðast og skapa félagi okkar og Fræðslustofnun möguleika á að styðja við bakið á læknum að þessu leyti.

Með félagskveðju,

Reynir Arngrímsson, formaður