Félagsdómur tryggi viðbótarálagsgreiðslur til lækna

Læknafélag Íslands hefur vísað ágreiningi við Landspítalann um viðbótarálagsgreiðslur til lækna vegna aukavakta til Félagsdóms. Þetta kemur fram á forsíðu Morgunblaðsins á laugardag.

„Þetta er ákvæði sem hefur verið í kjarasamningi lækna frá 2002 um að ef fyrirvari á breytingu á vakt er skemmri en 24 tímar er greidd viðbótarálagsgreiðsla fyrir þessa nýju vakt. Nú hefur Landspítalinn tekið það upp einhliða að túlka þetta þannig að það þurfi ekki að greiða það, með rökum sem við skiljum ekki,“ segir Reynir Arngrímsson, formaður Læknafélags Íslands, við Morgunblaðið.

Í fréttinni segir að mikil óánægja sé meðal lækna. Reynir segir aldrei hafa verið deilur um framkvæmdina eða greiðslurnar, og Landspítalinn aldrei tekið þetta upp í samráðshópi Landspítala og Læknafélagsins.

„Það kom okkur algjörlega í opna skjöldu að þeir vildu breyta þessu,“ segir Reynir. „Við sjáum ekki nein önnur úrræði en að fara með þetta fyrir Félagsdóm.“ Læknafélagið hafi ráðlagt læknum að mæta á vaktirnar séu þeir boðaðir en gera jafnframt fyrirvara um að þeir telji sig eiga rétt á viðbótargreiðslu.

„Við göngum út frá því að félagsdómur muni falla okkur í vil og þá verði þetta gert upp,“ segir hann við Morgunblaðið.

Sjá fréttina á mbl.is