Elías og Gunnar vísindamenn ársins á Landspítala

Elías Sæbjörn Eyþórsson og Gunnar Guðmundsson hafa verið valdir vísindamenn ársins 2021 á Landspítala. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landspítala. Elías er valinn sem ungur vísindamaður ársins og Gunnar sem heiðursvísindamaður ársins. Upplýst var um valið á árlegri uppskeruhátíð vísindastarfs á spítalanum, Vísindi á vordögum, sem fram fór í gær 28. apríl.

„Elías Sæbjörn hlaut viðurkenninguna ungur vísindamaður Landspítala 2021 fyrir athyglisverðan og góðan árangur á sviði vísindarannsókna. Elías er sérnámslæknir. Hann hefur birt á annan tug vísindagreina í erlendum vísindatímaritum og kynnt rannsóknir sínar á fjölmörgum ráðstefnum bæði innanlands og utan. Hann vinnur nú að rannsóknum á Covid-19 og var fyrsti höfundur að grein um einkennamynstur Covid-19 sem birtist í British Medical Journal í desember 2020,“ segir í umsögninni.

„Gunnar hlaut viðurkenninguna heiðursvísindamaður Landspítala 2021 fyrir framúrskarandi framlag til vísinda á ferli sínum. Gunnar er sérfræðingur í lungnalækningum við lyflækninga- og endurhæfingarþjónustu Landspítala og prófessor við læknadeild Háskóla Íslands. Hann hefur komið að félags- og nefndarstörfum hjá alþjóðlegum lungnasamtökum og verið formaður Félags íslenskra lungnalækna. Helstu verkefni Gunnars í vísindarannsóknum snúa að lungnasjúkdómum. Hann hefur unnið mjög náið með Hjartavernd að rannsóknum á millivefslungnabreytingum sem geta verið forstig lungnatrefjunar og hafa niðurstöður rannsókna þeirra vakið mikla athygli á alþjóðavettvangi. Einnig hefur Gunnar unnið að klínískum rannsóknum í samstarfsverkefni með norrænum háskólasjúkrahúsum, sem varpaði ljósi á samverkan annarra sjúkdóma með langvinnri lungnateppu,“ segir þar einnig.

Á þinginu var einnig tilkynnt að Hans Tómas Björnsson, prófessor við læknadeild Háskóla Íslands og yfirlæknir á Landspítala, hafi hlotið 6 milljóna króna verðlaun úr Verðlaunasjóði í læknisfræði og skyldum greinum.

„Verðlaunasjóðinn stofnuðu Árni Kristinsson og Þórður Harðarson árið 1986 en þeir eru heiðursprófessorar við Háskóla Íslands og fyrrverandi yfirlæknar við Landspítala. Verðlaunin eru einhver stærstu verðlaun sem veitt eru fyrir vísindastörf hér á landi.“