Ég er ekki stríðskona, segir Valgerður við Fréttablaðið

„Það er afleitt að þurfa að draga úr þjónustu, en nauðsynlegt þar sem samtökin þurftu að draga úr meðgjöf með sjúkrarekstrinum úr 250 milljónum í 125 milljónir króna árið 2020 vegna COVID-19 áhrifanna,“ segir Valgerður Rúnarsdóttir, yfirlæknir hjá SÁÁ, í forsíðuviðtali við Fréttablaðið sem birtist um helgina. Hún fer yfir starfið og lífið en hún hefur starfað hjá SÁÁ frá námslokum árið 2000.

„Best færi á því að yfirvöld greiddu að fullu fyrir þá heilbrigðisþjónustu sem SÁÁ veitir, svo hún sé ekki háð sjálfsaflafé og aflögu félagasamtakanna,“ segir hún í viðtalinu.

Valgerður tók við stöðu forstjóra og framkvæmdastjóra lækninga árið 2017 af Þórarni Tyrfingssyni. Styr stóð um starfsemina nú í heimsfaraldrinum vegna fjárhagsvanda. Elsta starfsfólkinu og sálfræðinum var sagt upp störfum og Valgerður sagði þá upp einnig en gekk svo aftur um borð um mánuði síðar og uppsagnirnar dregnar til baka.

„Þarna var tekin ákvörðun án samráðs við mig um uppsagnir fólks á meðferðarsviði án þess að athuga hvaða áhrif það hefði á starfsemina. Og það var hrapallega röng ákvörðun,“ segir Valgerður við Fréttablaðið. 

„Ástæðan sem var gefin var sú að þessar stéttir væru ekki hluti af þjónustusamningunum en þetta var átylla til að taka út sálfræðingana. Sumir voru líka komnir að eftirlaunaaldri og hvort eð er að hætta og því smekklaust að segja þeim upp á þennan hátt. Þetta var alger yfirgangur og gert undir fölsku flaggi. Allir vissu að það þyrfti að spara, en þetta var ekki rétta leiðin fyrir framtíð SÁÁ. Þetta er svo mikilvægt starf.“

 

Valgerður segir í viðtalinu að hún hafi skynjað undirtón gegn þeirri starfsemi sem hún og hennar fólk hafi verið að þróa á undanförnum árum. Frá fólki sem hafði verið lengi við stjórnvölinn, bæði í stjórn og fyrrverandi yfirmenn á meðferðarsviði.

„Þetta er einhver valdabarátta og ekki góð staða til að vera inni í. Ég er ekki stríðskona. Nýjum stjórnendum fylgja alltaf breytingar og nýjar áherslur. Sú faglega vinna sem unnin hefur verið af því fólki, sem segja átti upp, er ómetanleg viðbót fyrir starfsemina og starfsmenn, og hefur skilað sér beint í betri þjónustu við okkar skjólstæðinga. Þessi uppbygging þarf að halda áfram.“

Valgerður fer yfir málið í viðtali við Fréttablaðið og segir að samtalið um hlutverk formanns og framkvæmdastjórnar um fagleg málefni meðferðarsviðs eigi enn eftir að fara fram. Dagsetning fyrir aðalfund SÁÁ sé óákveðin en fundurinn verði bráðlega. Þar verði kosin 1/3 af 48 manna stjórn, sem aftur kýs níu manna framkvæmdastjórn, þar af formann og varaformann.

„Á fundinum kemur í ljós hvort tekið verði tillit til óánægjunnar með framkvæmdastjórnina. Þetta ástand hefur ekki haft áhrif á þjónustuna við sjúklingana en vitaskuld hefur þetta áhrif á líðan starfsfólksins,“ segir Valgerður við Fréttablaðið.

Mynd/Skjáskot/Fréttablaðið

Hér má lesa viðtalið við Valgerði í heild sinni.