Davíð O. og Viðar Örn hljóta vegsemd á Landspítala

Davíð O. Arn­ar, yf­ir­lækn­ir hjarta­lækn­inga, er heiður­s­vís­indamaður Land­spít­ala 2020, og Viðar Örn Eðvarðsson, barnalæknir, hlaut verðlaun Minningargjafasjóðs Landspítala Íslands 2020. Þetta var upplýst á Vísindum að hausti, árlegri uppskeruhátíð vísinda á Landspítala, sem fór fram þann 7. október.

Davíð O. Arnar er yf­ir­lækn­ir hjarta­lækn­inga á Land­spít­ala, formaður Fé­lags ís­lenskra lyflækna og gesta­pró­fess­or við lækna­deild Há­skóla Íslands. Verðlaun­in eru veitt ár­lega þeim sem þykir hafa náð framúrsk­ar­andi ár­angri í vís­inda­rann­sókn­um á starfs­ferli sín­um. 

„Hans meg­in áhuga­svið í vís­inda­rann­sókn­um snýr að erfðafræði hjart­slátt­ar­trufl­ana, sér í lagi gáttatifs, og nýt­ingu erfðaupp­lýs­inga í heil­brigðisþjón­ustu. Davíð hef­ur unnið mjög náið með Íslenskri erfðagrein­ingu og hafa niður­stöður rann­sókna þeirra vakið veru­lega at­hygli, birst í mjög virt­um tíma­rit­um og aukið skiln­ing okk­ar á grunn­or­sök­um hjart­slátt­ar­trufl­ana. Hafa rann­sókn­irn­ar meðal ann­ars sýnt fram á mik­il­vægi stökk­breyt­inga í genum sem tjá sam­dráttar­pró­tín hjarta­vöðvafruma í til­komu gáttatifs. Hafa þess­ar upp­götv­an­ir leitt til grund­vall­ar­breyt­inga á hug­mynd­un um mein­gerð þess­ar­ar al­gengu hjart­sláttatrufl­un­ar og gætu leitt af sér nýja nálg­un í áhættumati og meðferð sjúk­dóms­ins.“

Einnig hafi Davíð unnið heil­mikið að klín­ísk­um rann­sókn­um. „Þar má nefna sam­starfs­verk­efni með Hjarta­vernd á af­leiðing­um gáttatifs á heila, sér í lagi áhrif til skerðing­ar á vit­rænni getu, minnk­un­ar á heila­blóðflæði og heila­rúm­málsrýrn­un. Davíð hef­ur mik­inn áhuga á nýt­ingu snjall­tækni til fjar­vökt­un­ar á ein­kenn­um og líðan hjarta­sjúk­linga sem og til að efla fræðslu um mik­il­vægi lífstíls­breyt­inga. Davíð und­ir­býr nú rann­sókn­ir á fýsi­leika þess að bæta við fjar­eft­ir­liti og fræðslu með snjall­tækni til viðbót­ar hefðbund­inni meðferð við kran­sæðasjúk­dómi, hjarta­bil­un og gáttatifi í sam­starfi við fyr­ir­tækið Si­dekick Health,“ seg­ir í til­kynn­ing­u sem mbl.is birtir.

Viðar Örn Eðvarðsson er sérfræðingur í barnalækningum og nýrnalækningum barna. Hann er umsjónarlæknir nýrnalækninga barna á Barnaspítala Hringsins á Landspítala og prófessor í barnalæknisfræði við læknadeild Háskóla Íslands, segir á vef Landspítala. Verðlaunin nemi tveimur milljónum króna og hlaut Viðar þau á grundvelli verkefnisins: Þættir sem stuðla að steinamyndun og nýrnasjúkdómi hjá sjúklingum með APRT-skort og 2,8-díhydroxýadenínmigu.

„Viðar lauk embættisprófi í læknisfræði frá læknadeild Háskóla Íslands vorið 1987. Hann lagði stund á sérfræðinám í barnalækningum við Medical College of Georgia, í Augusta í Georgíu, Bandaríkunum, og í nýrnalækningum barna við St. Christopher’s Hospital for Children og Temple Háskóla í Philadelphia í Bandaríkjunum. Viðar var ráðinn dósent við læknadeild Háskóla Íslands árið 2013 og hlaut framgang í starf prófessors í barnalæknisfræði við sama skóla árið 2020.“

Sagt er frá því að Viðar og Runólfur Pálsson, sérfræðingur í lyflækningum og nýrnalækningum, forstöðumaður lyflækninga- og endurhæfingarþjónustu Landspítala og prófessor í lyflæknisfræði við læknadeild Háskóla Íslands, hafi árið 2009 stofnað ásamt leiðandi vísindamönnum í Bandaríkjunum samstarfshópinn The Rare Kidney Stone Consortium (www.rarekidneystones.org/) með það að markmiði að rannsaka sjaldgæfar orsakir nýrnasteina og kristallamiðlaðra nýrnaskemmda (kristallanýrnameins).

„Meðal þessara kvilla er adenínfosfóríbósýltransferasa (APRT)-skortur sem erfist með víkjandi máta og veldur bæði nýrnasteinum og langvinnum nýrnasjúkdómi sem leiðir til nýrnabilunar ef ekki er brugðist við með viðeigandi meðferð í tæka tíð. APRT-skortur er óvenju algengur meðal Íslendinga en 35 einstaklingar hafa greinst með sjúkdóminn hér á landi. Rannsóknarhópurinn á Landspítala hefur stofnað alþjóðlega miðstöð fyrir rannsóknir á APRT-skorti sem er nú leiðandi á heimsvísu.“

Á undanförnum áratug hafi umfangsmiklum gögnum og lífsýnum verið safnað frá liðlega 60 einstaklingum með APRT-skort frá ýmsum löndum og er þetta gagna- og lífsýnasafn það stærsta sinnar tegundar. „Rannsóknarhópurinn hefur enn fremur þróað aðferðir til greiningar á APRT-skorti sem jafnframt koma að notum við eftirlit með lyfjameðferð. Þessar aðferðir munu án efa efla klíníska þjónustu og rannsóknir enn frekar á komandi árum. Vinna hópsins hefur þegar leitt til birtingar fjölda greina í erlendum ritrýndum tímaritum á sviði lífvísinda, einnar doktorsvarnar og útskriftar fjögurra meistaranema. Sérstök áhersla verður áfram lögð á þjálfun ungra vísindamanna.“

Verðlaunastyrkur Minningargjafasjóðs Landspítala Íslands muni nýtast til áframhaldandi uppbyggingar gagna- og lífsýnasafns APRT-skorts sem skapar sterkan grundvöll fyrir frekari vísindarannsóknir á þessum sjúkdómi. „Í undirbúningi eru rannsóknir á meinmyndun kristallamiðlaðra nýrnaskemmda hjá sjúklingum með APRT-skort. Markmið rannsóknanna er að finna fleiri meðferðarúrræði við APRT-skorti en völ er á í dag, m.a. lyfjameðferð sem stöðvar eða hamlar framrás kristallanýrnameins.“

Mynd/Samsett skjáskot/Landspítali/mbl.is