Brot úr sögu CPME - hvað gerir CPME fyrir lækna

Um þessar mundir eru 60 ár liðin frá því að læknafélög 6 landa í Evrópu, frá Belgíu, Frakklandi, Þýskalandi, Ítalíu, Lúxemborg og Hollandi, stofnuðu með sér samtök sem fengu heitið CPME, Comité Permanent des Médecins Européens. Stofnfundurinn var haldinn í Amsterdam 23.október 1959. Á ensku kallast CPME Standing Committee of European Doctors og á íslensku ýmist Evrópusamtök lækna eða Samtök evrópskra læknafélaga. Þrjú lönd bættust í hópinn 1973 eða Danmörk, Bretland og Írland en Ísland t.d. ekki fyrr en 1995. Nú er CPME vettvangur fyrir 1,7 milljónir lækna, 28 lönd eru meðlimir, tvö eru með aukaaðild (Tyrkland og Úkraína)og fimm eru áheyrnarfulltrúar (Kosovo, Georgía, Albanía, Serbía og Ísrael) auk þess sem fern samtök sækja fundi. Sendinefndir eru misfjölmennar, Bretland og Þýskaland hafa gjarnan sent 4-5 fulltrúa hvort, en oftast hefur Ísland aðeins sent einn.

Í fyrstu sáu læknafélög hvers forseta um að sinna skrifstofuhaldi en frá árinu 1999 hefur CPME starfrækt skrifstofu í Brussel með fastráðnum framkvæmdastjóra og sérhæfðu starfsfólki. Framkvæmdastjóri nú er Annabel Seebohm. Forseti frá 1.janúar 2019 til ársloka 2021 er Frank Montgomery frá Þýskalandi og fjórir varaforsetar eru Ray Walley frá Írlandi, Ole Johan Bakke frá Noregi,  Christian Keijzer frá Hollandi og Daiva Brogiene frá Litháen. Gjaldkeri er Marjo Parkkila-Harju frá Finnlandi.

Verkefni samtakanna eru fjölbreytt og lúta að öllu því sem snertir læknastéttina, heilbrigðisþjónustu almennt og hag sjúklinga. Náið samstarf er við framkvæmdastjórn ESB (European Commission) sem leitar eftir áliti CPME á þeim málum innan læknisfræði og heilbrigðisþjónustu sem á döfinni eru hverju sinni. Einnig hefur CPME tekið þátt í alls konar nefndarstörfum og verkefnum, stórum og smáum, á þeirra snærum.  Þá má nefna fjölmargt sem upp kemur í aðildarlöndunum þar sem læknafélög geta átt í útistöðum við stjórnvöld, sætt órétti eða þurft á stuðningi að halda við sín ýmsu mál. Þannig er CPME rödd lækna í Evrópu. 

Árið 2012 var ég kosin forseti CPME til 3 ára og sinnti því hlutverki frá 1.janúar 2013 til ársloka 2015. Fyrir mig var sá tími mjög áhugaverður og mér fannst mikill heiður að vera talsmaður kollega í Evrópu. Annríki var að sjálfsögðu talsvert og málefnin mörg en með frábæru starfsfólki á skrifstofunni í Brussel svo og samstarfi við góða kollega varð árangurinn verulegur.

Læknastéttin er upp til hópa skipuð frábæru fólki, vel menntuðum læknum sem sinna störfum sínum af kostgæfni. Mikilvægt er að stjórnvöldum í hverju landi sé ljóst hver mikilvægur sá mannauður er.

 

Katrín Fjeldsted
Fulltrúi LÍ hjá CPME