Breyting sem dregur úr faglegu sjálfstæði sjúkraþjálfara

Stjórn Félags Íslenskra heimilislækna mótmælir þeim breytingum sem gerðar voru nýlega á endurgreiðslum vegna  kostnaðar við sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfara, breytingum sem fela í sér skerðingu þjónustu sjúklinga í bráðum veikindum og slysum, vegna aukinnar vinnu fyrir heimilislækna og heilsugæslustöðvar við beiðnaskrif. Þetta kemur fram í ályktun stjórnar félagsins.

 Félagið bendir á að síðan 2019 þegar reglugerð var breytt, hafi skjólstæðingar getað leitað beint til sjúkraþjálfara til að fá lausn sinna vandamála í 6 skipti án þess að fyrir liggi tilvísun frá lækni. 

„Sjúkraþjálfarar hafa þannig getað greint og hafið meðferð hjá þeim einstaklingum sem þurfa nokkur meðferðarskipti til að fá lausn sinna mála. Breytingin sem við mótmælum er breyting á reglugerð 1364/2019 frá 30. október 2020 sem felur í sér að nú þarf beiðni frá lækni frá fyrsta tíma hjá sjúkraþjálfara til að eiga möguleika á endurgreiðslu á hluta kostnaðar frá sjúkratryggingum,“ segir í ályktuninni.

 „Þessi breyting sem er sett inn án samtals við heimilislækna eða sjúkraþjálfara dregur úr faglegu sjálfstæði sjúkraþjálfara og flækir og tefur meðferð sem mögulega er bráð.“

Síðustu mánuði hefi heilsugæslan um allt land verið undir miklu álagi vegna heimsfaraldurs COVID 19. „[Þ]að er því sérstaklega á þessum tímum nauðsynlegt að heilbrigðisstéttir sameinist og skipti með sér verkum svo við náum sem heild að vinna að hag skjólstæðinga okkar,“ segir í ályktuninni sem Salóme Arnardóttir, heimililslæknir og formaður Félags íslenskra heimilslækna, ritar undir fyrir hönd stjórnar Félags íslenskra heimilislækna.