Ályktun stjórnar LÍ um nýsamþykkt lög frá Alþingi um rafrettur

Á fundi sínum 18. júní sl. samþykkti stjórn Læknafélags Íslands eftirfarandi ályktun:

Alþingi samþykkti nýverið lög um rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur. Lögin öðlast gildi 1. mars 2019.

Í tóbaksvarnarlögum eru reykingar óheimilar á veitinga- og skemmtistöðum vegna mögulegra áhrifa sem óbeinar reykingar geta haft á heilsufar þeirra sem viðstaddir eru. Við meðferð laga um rafrettur á Alþingi var lagt til að sambærilegt bann yrði sett fyrir notkun rafrettna á veitinga- og skemmtistöðum. Með naumum meirihluta, 26 atkvæðum gegn 25 var sú breytingartillaga felld. Þegar hin nýju lög um rafrettur ganga í gildi verður eigendum veitinga- og skemmtistaða því í sjálfsvald sett hvort reykja megi rafrettur á þessum stöðum.

LÍ telur mikilvægt að sömu heilbrigðis- og forvarnarsjónarmið séu höfð að leiðarljósi þegar kemur að reykingum á rafrettum. Reykur frá rafrettum inniheldur nikótín sem er vel þekkt sem sterkt og kröftugt fíkni- og ávanabindandi efni. Mengun í andrúmslofti þeirra sem ekki neyta nikótíns, en verða fyrir því að þurfa að anda að sér virku fíkni- og ávanabindandi efni með óbeinum reykingum á veitinga- og skemmtistöðu er því að mati LÍ óásættanlegt.

LÍ lýsir yfir sérstökum áhyggum í þessu tilliti vegna viðkvæmra hópa s.s. barna, fyrrverandi reykingafólks og einstaklinga með viðkvæma hjarta- og lungnasjúkdóma. Mikilvægt er að virða rétt þeirra sem náð hafa að hætta neyslu nikótíns, en verða með þessum hætti óhjákvæmilega fyrir áhrifum þess vegna óbeinna reykinga við þessar aðstæður og þar með auknum líkum á að ánetjast fíkniefninu á nýjan leik.

LÍ telur það ganga gegn settum lýðheilsumarkmiðum um að draga úr reykingum og neyslu ávana- og fíkniefna s.s. nikótíns að ekki skuli hafa verið bannaðar reykingar rafrettna á veitinga- og skemmtistöðum í hinum nýju lögum.

LÍ skorar því á heilbrigðisráðherra að leggja strax í upphafi næsta þings fram lagabreytingatillögu við framagreind lög þar sem bætt verði við 11. gr. laganna banni við því að nota rafrettur á veitinga- og skemmtistöðum. LÍ hvetur alþingismenn til að lagfæra þau mistök sem félagið telur að gerð hafi verið við afgreiðslu framangreindrar breytingartillögu. Fyrir liggur að stór hópur þingmanna tók ekki þátt í atkvæðagreiðslunni. Með samþykkt slíkrar lagabreytingar myndi takast að tryggja bann við reykingum rafrettna á veitinga- og skemmtistöðum áður en hin nýju lög ganga í gildi. Mikilvægt er í þessu sambandi að hafa í huga að það var mikilvægt skref í þágu forvarna og lýðheilsusjónarmiða þegar reykingar voru bannaðar á veitinga- og skemmtistöðum. Með því var stuðlað að því að tryggja bæði þeim sem sækja veitinga- og skemmtistaði sem og starfsmönnum þeirra hreint loft, ómengað af ávana- og fíkniefnum

Takist ekki með lagabreytingu að banna reykingar rafrettna á veitinga-og skemmtistöðum skorar stjórn Læknafélags Íslands á eigendur þessara staða að banna reykingar rafretta á stöðum sínum þegar nýju lögin ganga í gildi.