Ályktun stjórnar læknaráðs um greiningu á fjölda stjórnunarstarfa á Landspítala

Boðaðar hafa verið aðhaldsaðgerðir á Landspítala vegna ónógra fjárveitinga miðað við núverandi rekstur spítalans. Framkvæmdastjórn spítalans hefur lýst því yfir að reynt verði að hlífa klínískri þjónustu sem er virðingarverð forgangsröðun.

Víða erlendis hefur kostnaður hins opinbera við stjórnsýslu í heilbrigðiskerfinu margfaldast undanfarna áratugi samfara aukningu á fjölda starfsmanna í stjórnunar- og skrifstofustörfum á meðan fjöldi klínískra starfsmanna hefur vaxið mun hægar. Stjórn læknaráðs hefur óskað eftir greiningu á fjölda stjórnenda, svo sem verkefnisstjóra og annarra starfsmanna sem ekki sinna klínískum störfum, á Landspítala. Stjórn læknaráðs hvetur Landspítala til þess að birta niðurstöður slíkrar greiningar og til að rannsaka hvort þar séu tækifæri hvað varðar aðhaldsaðgerðir.

Stjórn læknaráðs leggur áherslu á mikilvægi þess að tryggja störf og starfsaðstæður sérhæfðs heilbrigðismenntaðs starfsfólks sem sinnir sjúklingum á Landspítala, enda skulu hagsmunir og þarfir sjúklinga vera leiðarljós í þjónustu, rekstri og skipulagi spítalans.