Ályktun samþykkt á fjölmennum fundi Félags sjúkrahúslækna og Félags almennra lækna um ástandið á Landspítala

Á fjölmennum fundi Félags sjúkrahúslækna og Félags almennra lækna, sem haldinn var á Landspítala, Fossvogi í gær, 8. janúar, var eftirfarandi ályktun samþykkt:

Almennur félagsfundur Félags sjúkrahúslækna og Félags almennra lækna 8. janúar 2020 lýsir yfir þungum áhyggjum af viðvarandi óviðunandi og  stöðugt versnandi ástandi á Landspítala. 

Hættuástand er fyrir löngu daglegur veruleiki á deildum spítalans.

Fjöldi bráðveikra einstaklinga er jafnvel dögum saman í óviðunandi aðstæðum á stofu með fjölda annarra og á göngum spítalans.

Ástand þetta er fullkomlega óboðlegt frá öllum hliðum séð og hefur neikvæð áhrif á líðan og öryggi sjúklinga, spillir möguleikum á eðlilegri faglegri þjónustu starfsfólks og truflar skilvirkni starfseminnar.

Ástandið gerir auk þess starfsfólki ókleift að sinna einu mikilvægasta hlutverki spítalans sem er kennsla og vísindastarf.

Skorað er á stjórnvöld, yfirstjórn sjúkrahússins og Embætti Landlæknis að axla ábyrgð á ástandinu og án tafar taka höndum saman við starfsfólk til að finna viðunandi lausn til skemmri og lengri tíma.

Félögin bjóða fram krafta sína og sérþekkingu til að hjálpa til við lausn þessa vanda.