Ályktun frá Félagi íslenskra endurhæfingarlækna

Félag íslenskra endurhæfingarlækna samþykkti eftirfarandi ályktun á félagsfundi 16. október 2019:

Félagið fordæmir vinnubrögð stjórnarformanns og varaformanns stjórnar SÍBS gagnvart forstjóra og framkvæmdastjóra lækninga Reykjalundar, með fyrirvaralausum uppsögnum án skýringa. Háttsemin hefur markast af hroka og virðingarleysi gagnvart einstaklingum og skilningsleysi á mikilvægi þeirrar starfsemi sem fram fer á Reykjalundi. Fjarlægð og áhugaleysi forsvarsmanna SÍBS gagnvart starfseminni hefur verið viðvarandi um langt skeið, m.a. vegna viðhorfa sem snúast meira um fjármuni en gæði og mikilvægi þjónustunnar. Það litla traust sem fyrir var á stjórn SÍBS er að engu orðið í kjölfar þessara atburða.

Þá vekur það furðu að í auglýsingu um starf framkvæmdastjóra lækninga á Reykjalundi var ekki gerð krafa um að umsækjendur hafi sérfræðileyfi í endurhæfingarlækningum. Framkvæmdastjóri lækninga ber faglega ábyrgð á læknisfræðilegri endurhæfingu og er því með miklum ólíkindum að á stofnun sem er stærsta endurhæfingarstofnun landsins sé ekki gerð krafa um sérfræðimenntun í endurhæfingarlækningum.
Félagið telur að áhugamannafélög og sjúklingasamtök séu ekki til þess fallin að stýra heilbrigðisstofnun sem veitir þjónustu sem greidd er af almannafé. Háttalag stjórnar SÍBS styður þá skoðun og setur í uppnám áratuga faglegt uppbyggingarstarf á Reykjalundi. Jafnframt vill félagið benda á nýlegt dæmi frá Heilsustofnun NLFÍ þar sem lækni, sem gegndi starfi yfirlæknis og framkvæmdastjóra, var sagt upp fyrirvaralaust vegna ábendinga hans um óeðlilega ráðstöfun fjármuna stofnunar sem nýtur framlags úr ríkissjóði. Hér er um að ræða mikilvæg hagsmunamál almennings sem koma verður í betri farveg.

Félagið hefur verulegar áhyggjur af framtíð endurhæfingarlækninga á Íslandi. Mikill skortur er á endurhæfingarlæknum og ef flótti verður frá stærstu endurhæfingarstofnun landsins mun það hafa alvarlegar afleiðingar fyrir þróun endurhæfingarþjónustu á Íslandi.