Ályktun frá aðalfundi Félags krabbameinslækna

Á aðalfundi Félags krabbameinslækna sem haldinn var nú í byrjun desember var eftirfarandi ályktun samþykkt : 

"Undanfarið hefur verið umræða um stöðu Landspítala Háskólasjúkrahúss og sparnaðaraðgerðir á þeirri stofnun. Auk þessa hefur komið í ljós að Íslendingar setja að meðaltali minna fjármagn í heilbrigðismál en helmingur OECD ríkja. Af þessu tilefni vill Félag krabbameinslækna leggja orð í belg og vekja athygli á þeim þáttum sem koma að því félagi. Í byrjun árs 2019 var birt á vef stjórnarráðsins krabbameinsáætlun fram til ársins 2020. Sú áætlun var unnin á árunum 2013-2016 eins og þar kemur fram en ráðherra hefur jafnframt ákveðið að gildistími áætlunarinnar verði framlengdur til ársins 2030.

Félag krabbameinslækna lýsir yfir ánægju með að þessi krabbameinsáætlun hafi loks komið fram en gerir eftirfarandi athugasemdir. Til þess að það sé hægt að vinna að þeim mörgu háleitu markmiðum sem sett eru fram í ályktuninni þarf fjármagn og mannauð. Fjöldi krabbameinslækna sem unnið hafa að umönnun krabbameinssjúklinga á Íslandi hefur sveiflast á þessu tímabili og verið á bilinu 7 til 11 á meðan krabbameinsáætlun gerir ráð fyrir minnst 18 læknum. Því má segja að sparnaður ríkisins og spítalans á undirmönnun þessa fags á Íslandi hlýtur að teljast verulegur.

Á sama tíma er árangur við meðferð krabbameinssjúklinga á Íslandi á við það sem best gerist. Það hefur tekist, þrátt fyrir að komum á göngudeild krabbameinslækninga Landspítala Háskólasjúkrahúss hafi fjölgað úr 9.782 árið 2014 í 12.164 árið 2018, eða um 25%. Þá er rétt að nefna að á sama tímabili hefur einnig verið aukið umfang þjónustu við krabbameinssjúklinga, bæði á Sjúkrahúsinu á Akureyri sem og Heilbrigðisstofnun Suðurlands. Þessi aukning kemur til af bæði fjölgun og breyttri aldurssamsetningu þjóðarinnar sem og almennt bættum árangri við meðferð. Auk þessa spáir Krabbameinsskrá Krabbameinsfélags Íslands um 25-30% fjölgun nýrra krabbameinstilvika til viðbótar til ársins 2030. Augljóst má telja að sú mönnunarþörf sem gert var ráð fyrir á árunum 2013 – 2016 er nú þegar orðin úrelt og velta má upp þeirri spurningu hvort aðrir þættir í krabbameinsáætlun séu einnig orðnir úreldir og hvenær þörf sé endurskoðunar? 

Í niðurlagi um Markmið og aðgerðir í tillögu að íslenskri krabbameinsáætlun til ársins 2020 er rætt um að „Nægjanlegt fjármagn fylgi framkvæmd áætlunarinnar sem tekur mið af framkvæmdinni í heild sinni og einstökum áhersluatriðum á því tímabili sem áætlunin tekur til“. Orð eru til alls fyrst en vonandi mun þessum orðum verða fylgt eftir með athöfnum öðrum en sparnaði eins og virðist vera raunin.

Einnig vill Félag krabbameinslækna beina þeim tilmælum til ráðamanna að allt tal um heilbrigðiskerfið beri að skoða út frá þeim sjónarhóli að fjárútlát til þess kerfis og Landspítala þar á meðal eru ekki kostnaður, heldur fjárfesting í verðmætasköpun fyrir þjóðfélagið þar sem verið er að stuðla að bættri heilsu og langlífi landsmanna. Heilbrigðisstarfsfólk er oftar en ekki að vinna við undirmönnun og mikið álag þar sem gerðar eru sívaxandi kröfur m.t.t. árangurs og þekkingar. Röskun á starfsumhverfi með sparnaðarkröfum til Landspítala og undirfjármögnunar á heilbrigðiskerfinu í heild sinni getur reynst tvíeggjað sverð og mögulega komið niður á langtímaárangri með tilliti til heilbrigðis og velferðar Íslensku þjóðarinnar."