Alþjóðasamtök lækna og dánaraðstoð

Líknardráp (euthanasia) og sjálfsvíg með aðstoð læknis (physician assisted suicide) sem hér hafa samheitið “dánaraðstoð” hafa lengi verið til umræðu innan Alþjóðasamtaka lækna (World Medical Association www.wma.net.). Hér verður stuttlega gerð grein fyrir þeim álitum sem fram hafa komið frá samtökunum og varða þessi mál. Læknafélag Íslands (LÍ) var meðal stofnfélaga samtakanna 1947 og hefur tekið virkan þátt í starfi þeirra frá stofnun. M.a. gegndi fulltrúi LÍ, Jón Snædal öldrunarlæknir, formennsku í siðanefnd samtakanna um árabil og var forseti þeirra 2007 til 2008.

Líknardráp (Euthanasia)

Yfirlýsing WMA um líknardráp (WMA Declaration on Euthanasia) var fyrst samþykkt árið 1987. Yfirlýsingin hefur verið endurskoðuð tvisvar, árin 2005 og 2015. Frá aldamótum tók WMA upp þá vinnureglu að endurskoða öll útgefin álit á 10 ára fresti. Upphafi yfirlýsingarinnar var ekki breytt í hvorugri endurskoðuninni, en það hljóðar svo:

Euthanasia, that is the act of deliberately ending the life of a patient, even at the patient’s own request or at the request of close relatives, is unethical. This does not prevent the physician from respecting the desire of a patient to allow the natural process of death to follow its course in the terminal phase of sickness.

Þótt mörg ár líði á milli þess að þessi yfirlýsing sé formlega rædd hjá WMA er málefnið oft á dagskrá samtakanna. Því þótti rétt árið 2002 að senda sérstaka skoðun á málinu (Resolution) til að hnykkja á yfirlýsingunni. Þessi skoðun var ítrekuð árið 2013 og segir í niðurlagi hennar:

The World Medical Association reaffirms its strong belief that euthanasia is in conflict with basic ethical principles of medical practice, and The World Medical Association strongly encourages all National Medical Associations and physicians to refrain from participating in euthanasia, even if national law allows it or decriminalizes it under certain conditions.

Undanfarin ár hafa komið fram á vettvangi WMA óskir um endurskoðun á hinni mjög svo afdráttarlausu yfirlýsingu í því skyni að milda orðalagið. Sjónarmið þeirra sem vilja breytingu er að læknir sem hlýtir lögum síns lands og framkvæmir líknardráp innan ramma laganna sé ekki talinn framkvæma siðlausan verknað. Aðeins tvö aðildarfélög WMA af 114 koma frá löndum þar sem líkardráp er leyft.

Sjálfsvíg með aðstoð læknis (Physician assisted suicide)

Árið 1992 þótti rétt að gefa út sérstakt álit á vegum WMA um sjálfsvíg með aðstoð læknis (WMA Statement on Physician-Assisted Suicide). Þessu áliti var lítillega breytt við endurskoðun þess árið 2005 en var síðan samþykkt óbreytt við síðustu endurskoðun árið 2015. Textinn er stuttur og afgerandi líkt og yfirlýsingin um líknardráp:

Physician-assisted suicide, like euthanasia, is unethical and must be condemned by the medical profession. Where the assistance of the physician is intentionally and deliberately directed at enabling an individual to end his or her own life, the physician acts unethically. However, the right to decline medical treatment is a basic right of the patient and the physician does not act unethically even if respecting such a wish results in the death of the patient.

Samtökin hafa einnig ályktað um læknisfræði við lok lífs og hafa gefið út yfirlýsingu þar að lútandi (WMA Declaration on End-of Life Medical Care) og nátengd henni er yfirýsing um lokastigsveikindi (WMA Declaration on Terminal Illness). Í hinni fyrrnefndu er ekki orði vikið að dánaraðstoð en í hinni síðari, sem núna er til endurskoðunar, er vikið að henni og hún fordæmd með svipuðu orðalagi og í áðurnefndum yfirlýsingum og álitum.

Á síðustu þremur árum hafa á vegum WMA verið haldin fjögur málþing um þessi mál í jafn mörgum heimsálfum . Samantekt um málþingin var kynnt á aðalfundi WMA í Reykjavík í október 2018. Niðurstaðan er afgerandi, ef frá eru talin örfá erindi fulltrúa frá löndum eins og Hollandi og Kanada, um það að dánaraðstoð sé sifræðilega óverjandi. Þessi afstaða WMA var enn ítrekuð ári síðar á aðalfundi samtakanna í október 2019 sem haldinn var í Tblisi. Þar var samþykkt að sameina yfirlýsingarnar um líknardráp og sjálfsvíg með aðstoð læknis í eina yfirlýsingu (WMA Declaration on Euthanasia and Physician-Assisted Suicide). Í inngangsorðum hinnar sameinuðu yfirlýsingar segir:

The WMA reiterates its strong commitment to the principles of medical ethics and that utmost respect has to be maintained for human life. Therefore, the WMA is firmly opposed to euthanasia and physician-assisted suicide.

Af þessu má sjá að afstaða WMA er áfram afgerandi og leiðbeinandi, en þó nokkuð mildari. Ekki er lengur sagt að þessir verknaðir séu siðlausir. Með því hefur verið komið til móts við lækna sem starfa í löndum sem leyfa líknardráp og sjálfsvíg með aðstoð læknis. Þessi breyting var ekki samþykkt einróma en með þeim aukna meirihluta sem til þurfti.

 Reynsla annarra landa af líknardrápi og sjálfsvígum með aðstoð læknis

 Holland

Lengst er reynslan frá Hollandi. Þar voru sett lög um þetta árið 2001. Fulltrúar Hollenska læknafélagsins hafa verið mjög áhugasamir um að koma sjónarmiðum sínum á framfæri á vettvangi WMA og hefur mislíkað hversu afgerandi afstaða WMA hefur alltaf verið. Þeir hafa þó einnig verið ófeimnir að ræða það sem þeim hefur ekki líkað við þá löggjöf sem sett var í Hollandi. Félagið tók á sínum tíma virkan þátt í að móta þær reglur sem fylgt er við framkvæmd líknardráps. Lögin þar eru ekki ítarleg og í raun segja þau eingöngu að dánaraðstoð sé ekki hegningarlagabrot. Reglurnar fela m.a. í sér að tveir læknar þurfa að komast að þeirri niðurstöðu að umbeðin dánaraðstoð sjúklings skuli veitt og einnig að öll tilvik eru skoðuð eftir á af sérstakri siðanefnd.

Nú eru hins vegar blikur á lofti. Í upphafi var varað við því að inngrip eins og þetta, sem þá var sjaldgæft, myndi breiðast út og að reglur myndu síðan verða rýmkaðar (e: slippery slope). Framan af virtist þetta ekki ætla að rætast en í töflu má sjá að frá árinu 2007 hefur verið stöðugur stígandi í fjölda líknardrápa. Í byrjun aldarinnar voru um eitt og hálft prósent dauðsfalla með dánaraðstoð en er núna um 4%. Tilfellum fækkaði þó fyrri hluta árs 2018 í kjölfar fyrstu réttarhaldanna gegn lækni sem talinn var hafa brotið gegn reglunum. Hann hafði hjálpað 74 ára konu með heilabilun yfir móðuna miklu á þeim grunni að hún hafði nokkrum árum áður óskað eftir líknardrápi en þegar til kom streittist hún á móti en líknardrápið var engu að síður framkvæmt.

Reglunum hefur ekki verið breytt en fram hafa komið á hollenska þinginu tillögur um að til viðbótar við “óbærilegrar þjáningar” eins og nú er skilyrði nægði að viðkomandi væri haldinn miklum lífsleiða. Læknafélagið hollenska beitti sér gegn þessum breytingum og þær voru felldar á þinginu, en þær sýna þó að viðhorfin breytast, eins og óttast var í upphafi.

 

Tafla 1 Fjöldi líknardráps í Hollandi

 

 

Að endingu skal bent á gagnrýna grein í Guardian frá janúar 2019 um dánaraðstoð í Hollandi. Hana má lesa hér.

Kanada

Í kjölfar dóms Hæstaréttar Kanada árið 2015 voru sett lög þar í landi sem heimila sjálfsvíg með aðstoð læknis. Þau tóku gildi um mitt ár 2016. Á heimasíðu kanadísku ríkisstjórnarinnar er að finna nákvæma útlistun á gildandi reglum svo sem hver getur aðstoðað við sjálfsvíg, hverjir geta farið fram á það o.s.frv.: Hér.

 Kanadíska læknafélagið getur ekki hvatt félagsmenn til lögbrota og hefur því ekki sett sig á móti því að þetta sé gert en innan félagsins eru skoðanir mjög skiptar.

Það er of snemmt að segja til um þróun mála í Kanada en þó virðist sem inngripið verði aðgengilegra. Þannig jókst fjöldinn um 30% frá seinni hluta 2017 til fyrri hluta árs 2018.

Íslensk löggjöf

Hér á landi hefur lengi verið litið svo á að mannslífið sé friðheilagt. Í almennum hegningarlögum nr. 19/1940 með síðari breytingum eru ákvæði sem hér koma til skoðunar. Þannig segir í 213. gr. að hver sem sviptir annan mann lífi fyrir brýna beiðni hans skuli sæta fangelsi allt að þremur árum. Í skýringum með 213. gr. segir að séu miklar málsbætur fyrir hendi svo sem að sá sem verksins beiðist sé haldinn ólæknandi, kvalafullum sjúkdómi mundi mega lækka refsingu eða jafnvel láta hana falla niður. Í 214. gr. segir að ef maður stuðli að því að annar maður ráði sér sjálfur bana þá skuli hann sæta fangelsi allt að einu ári eða sektum. Sé það gert í eigingjörnum tilgangi skal refsa með fangelsi allt að þremur árum. Þessi ákvæði eru mjög afdráttarlaus. Að óbreyttum þessum ákvæðum er ekki unnt að heimila hér á landi líknardráp eða aðstoð lækna við sjálfsvíg, því hvorutveggja hlyti að vera refsivert samkvæmt þessum ákvæðum.

Önnur svæði

Dánaraðstoð er leyfð með lögum í Belgíu og í Sviss eru sjálfsvíg með aðstoð læknis leyft. Sviss er eina landið sem leyfir erlendum ríkisborgurum að koma til landsins til að fá þessa aðstoð og þar eru einkasjúkrahús sem hafa markaðsett sig á þessu sviði.

Í þessum málefnum eru fylki í Bandaríkjunum og Ástralíu sjálfstæð. Settar hafa verið reglur um dánaraðstoð t.d. í Oregon í Bandaríkjunum og í Victoria í Ástralíu.

Af þessu má sjá að það eru fáein lönd og landsvæði í heiminum sem leyfa líknardráp og sjálfsvíg með aðstoð læknis. Þessum löndum eða svæðum hefur ekki fjölgað hratt og ekki sýnist líklegt að á því verði breyting á næstunni. Ekki er t.d. hægt að sjá mikla hreyfingu í þessa átt á hinum Norðurlöndunum þótt umræðan komi upp af og til.

Reynir Arngrímsson, formaður LÍ