Alrangt að gæði og öryggi séu tryggð með samningum við erlenda aðila

Ákveðið var að semja við danska rannsóknarstofu um að greina sýnin fyrir leghálskrabbameini þvert á álit meirihluta fagráðs um leghálsskimanir „og að því er virðist án samráðs við aðra en heilsugæsluna.“ Þetta segir í opnu bréfi Önnu Margrétar Jónsdóttur, formanns Félags íslenskra rannsóknarlækna og sérfræðingur í meinafræði, sem birtist í Morgunblaðinu í dag.

„Það er varhugaverð þróun að sýni séu send úr landi á þeim forsendum að ekki sé hægt að tryggja gæði og öryggi rannsókna sem gerðar eru innanlands,“ segir hún í greininni.

„Félagið telur alrangt að gæði og öryggi rannsókna, og þar með heilsa og öryggi kvenna, séu best tryggð með samningum við erlenda aðila. Þvert á móti; boðleiðir verða styttri og skilvirkni meiri með því að halda áfram að gera þessar rannsóknir á Íslandi. “

Hér má lesa greinina í heild sinni eins og hún birtist í Morgunblaðinu:

 

Skimun fyrir leghálskrabbameini – opið bréf til heilbrigðisráðherra

Eftir Önnu Margréti Jónsdóttur

Um síðastliðin áramót var skimun fyrir leghálskrabbameini færð frá Krabbameinsfélaginu til heilsugæslunnar. Jafnframt var ákveðið að semja við danska rannsóknarstofu um að greina sýnin en sú ákvörðun var tekin þvert á álit meirihluta fagráðs um leghálsskimanir og að því er virðist án samráðs við aðra en heilsugæsluna.

Heilbrigðisráðherra segir það vera öryggismál að fá utanaðkomandi aðila til að greina sýnin. Það er umhugsunarefni að ráðherra heilbrigðismála skuli tala niður íslenskar rannsóknarstofur og varhugaverð þróun að sýni séu send úr landi á þeim forsendum að ekki sé hægt að tryggja gæði og öryggi rannsókna sem gerðar eru innanlands.

HPV-veiran veldur nær öllum forstigsbreytingum og krabbameinum í leghálsi og meirihluti kvenna smitast af veirunni á lífsleiðinni. Flestar sýkingar ganga fljótt yfir en sýking getur orðið viðvarandi og þá mögulega valdið frumubreytingum. Með HPVveiruprófi er hægt að greina HPV-sýkingu. Samkvæmt nýju verklagi verður gert HPVveirupróf á leghálssýnum þeirra kvenna sem eru 30 ára og eldri og síðan einungis gerð smásjárskoðun á þeim sýnum sem reynast jákvæð í HPV-veiruprófinu. Þetta gerir frumuskoðun í smásjá hnitmiðaðri enda fækkar eðlilegum frumusýnum.

Með þessari breytingu verður meiri þörf á veiruprófum en áður. Sýkla- og veirufræðideild Landspítalans er gæðavottuð rannsóknarstofa, með góða fagþekkingu, fullkominn tækjabúnað og mikla afkastagetu til að greina HPV-veiruna. Sýkla- og veirufræðideild Landspítalans hefur auk þess sinnt þessari þjónustu síðastliðin tvö ár fyrir Krabbameinsfélagið.

Innan meinafræðideildar Landspítalans er starfrækt frumumeinafræðideild þar sem skoðuð eru frumusýni frá ýmsum líffærum. Þessi þjónusta skiptir sköpum þegar kemur að því að ákveða áframhaldandi meðferð sjúklinga. Tækjabúnaður, aðstaða og mannskapur til að sinna frumuskoðun á skimunarsýnum frá leghálsi er ekki til staðar á Landspítalanum núna. Hins vegar hefði auðvitað með viðeigandi ráðstöfunum verið hægt að færa þessa starfsemi inn á Landspítalann og tryggja þar viðhaldsmenntun, gæðaeftirlit og þjálfun starfsmanna.

Félag íslenskra rannsóknarlækna harmar að sú leið skuli ekki hafa verið valin að skimun fyrir leghálskrabbameini verði gerð innanlands. Félagið telur alrangt að gæði og öryggi rannsókna, og þar með heilsa og öryggi kvenna, séu best tryggð með samningum við erlenda aðila. Þvert á móti; boðleiðir verða styttri og skilvirkni meiri með því að halda áfram að gera þessar rannsóknir á Íslandi.

Fyrir hönd Félags íslenskra rannsóknarlækna,

Höfundur er formaður Félags íslenskra rannsóknarlækna og sérfræðingur í meinafræði.

Mynd/Skjáskot/Morgunblaðið