Á skal að ósi stemma – covid og framtíðin

Í umsögn Læknafélags Íslands um nýlegar bráðabirgðabreytingar á sóttvarnalögum sem Alþingi samþykkti í lok sl. ár kemur fram afdráttarlaus stuðningur við að styrkja betur heimildir stjórnvalda til að grípa til opinberra sóttvarnaráðstafanna í ljós krafna sem lögmætisregla og lagaskyldureglur stjórnarskrárinnar gera. Frumvarpið studdist að verulegu leyti við álitsgerð dr. juris Páls Hreinssonar sem unnin var að beiðni stjórnvalda og var markmiðið að tryggja betur skuldbindingar Íslands skv. alþjóðaheilbrigðisreglugerð Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar. Markmið og gildissvið alþjóðareglugerðarinnar er að koma í veg fyrir útbreiðslu sjúkdóma milli landa, veita vernd gegn slíkri útbreiðslu, halda henni í skefjun og gera viðbragðsáætlanir á sviði lýðheilsu með aðferðum sem miðast og takmarkast við hættur fyrir lýðheilsu en koma jafnframt í veg fyrir ónauðsynlega röskun á umferð og viðskiptum milli landa.

Í nágrannalöndunum

Á undanförnum misserum höfum við séð ýmsar útfærslur í nágrannalöndum okkar á takmörkun ferða yfir landamæri. Þegar breska afbrigði COVID-19 veirunnar kom upp lokuðu ýmis nágrannlönd um skeið á komu breskra ríkisborgara og ferðamanna frá Bretlandi. Bresk yfirvöld hafa sett veruleg höft á ferðaheimildir borgara sinna. Í Noregi, Kanada og Ástralíu, svo þekkt dæmi séu tekin, þurfa komufarþegar að fara í sóttkví við landamærin (útfært sem sóttvarnahótel á vegum stjórnvalda og viðkomandi þurfa að greiða fyrir dvölina) áður en þeir geta komið að fullu inn í landið. Byggir það á heimild til afkvíunar (setja í sóttkví). En skilgreining á afkvíun/sóttkví er takmörkun á athafnafrelsi og/eða aðskilnaður grunsamlegra einstaklinga, sem eru ekki veikir, á þann hátt sem kemur í veg fyrir hugsanlega útbreiðslu sýkingar (í tilfelli farsótta) og að slíkt farsótt sé hætta fyrir lýðheilsuna vegna þess að hún berist milli landa og gæti skapað alvarlega eða beina hættu. Sóttvarnalög á Íslandi eru í megindráttum samhljóða þessum tilmælum í Alþjóðareglugerðinni, þó fram hafi komið að ítarlegri og fyllri endurskoðun laganna sé fyrirhuguð. Þrátt fyrir ofangreint og ákvæði sóttvarnalaga er það mat héraðsdóms að íslenskum yfirvöldum sé þrengri stakkur búinn til bregðast við hættu fyrir lýðheilsuna, eða afkvíunar við landamærin vegna farsóttar sem ágreiningslaust er að getur skapað beina hættu og haft skaðleg áhrif á heilbrigði hópa fólks.

Ástandið á landamærunum

Íslendingar hafa sammælst um að bregðast við aðsteðjandi farsótt undir merkjum þess að öll séum við almannavarnir og mikilvægi þess að fletja út kúrfuna sem tákn um árangur samstöðunnar. Gripið hefur verið til strangra aðhaldsaðgerða, athafnafrelsi takmarkað sem og margvísleg réttindi sem við höfðum vanist. Með því hefur verið þrengt að borgarlegu frelsi og mannréttindum. Það er hins vegar eðli og einkenni sóttvarnaaðgerða að vernda almannaheill á kostnað einstaklingssvigrúms. Segja má þó að í a.m.k. flestum þeim aðgerðum sem gripið hefur verið til hefur meðalhófs verið gætt og aðgerðirnar notið stuðnings alls meginþorra almennings. Við deilum sömu reynslu og í nágrannalöndum okkar að þegar slakað hefur verið á ströngum tilmælum hefur ekki liðið á löngu þar til að upp hafa komið staðbundnar hópsýkingar eða nýjar bylgjur. Athygli vekur að nýgengi greininga á meðal ferðalanga á landamærunum hefur undanfarna mánuði verið mun hærri en innanlands. Þá urðu straumhvörf nýlega þegar ný og skæðari afbrigði fóru að greinast innanlands. Við þessari staðreynd hafa heilbrigðisyfirvöld verið að bregðast við með tillögum um harðari aðgerðum gagnvart ferðamönnum.

Mynd 1. Virk smit á landamærum Íslands. 

Þegar horft er til nýgengis COVID-19 greininga innanlands má segja að árangur sóttvarnaaðgerða hafi verið framúrskarandi en ekki fullkominn, sértaklega þegar borið er saman við nágrannlönd okkar. Hins vegar er myndin allt önnur þegar nýgengi COVID-19 greininga á landamærunum er skoðuð. Á mynd 1 má sjá nýgengi virkra smita á landamærunum á hverja 100.000 farþega.[1]

 

Til viðmiðunar þá er skilgreining á 14 daga nýgengisstuðli fyrir dökk rauð lönd 500 á 100.000 íbúa. Græn lönd eru skilgreind þau sem hafa nýgengisstuðul lægri en 25 á 100.000 íbúa (mynd 2)[2]. Það þarf því ekki að koma á óvart að krafist sé strangra móttökuaðgerða og skilyrða fyrir innkomu í landið. Árangurinn af fyrri aðgerðum sem hafa byggst á tvöfaldri skimun allra farþega og síðan trausti yfirvalda og samfélagsins alls að þeir fylgi reglum um sóttkví hefur sýnt sig að vera ekki nægilegur. Verkefnið hlýtur því að vera að fletja út kúrfuna í hópi ferðalanganna áður en þeim er hleypt inn í samfélagið fremur en loka landamærunum.

Mynd 2. Nýgengiskort COVID-19 í Evrópulöndum 8. apríl 2021. Nýgengi getur verið mishátt innan landamæra sem getur leitt til mismunandi strangra aðgerða eftir borgum eða landsvæðum. Í Noregi eru allir farþegar krafðir um dvöl í sóttkví 

Brestir í samstöðunni

Lengi hefur legið fyrir, m.a. í tíðum ábendingum lögregluyfirvalda á Keflavíkurflugvelli um ásetningarbrot, að brestir eru í vilja farþega til að fylgja eftir tilmælum sem fylgja sóttkví.. Almenn tilmæli gagnvart þessum hópi hafa ekki dugað. Einnig hafa komið upp veikleikar í þeim aðgerðum sem felast í heimasóttkví vegna eðlis smitsins t.d. í fjölbýli þar sem ekki er dregin í efa vilji og varkárni hlutaðeigandi. Fram hefur komið hjá sóttvarnaryfirvöldun að það er veiran sjálf sem hefur komið upp um smitin. Þegar gengið hefur verið á fólk sem komið hefur erlendis frá og átt að vera í sóttkví hafa sóttkvíarbrotin verið viðurkennd og nauðsynleg samvinna náðst. Í flestum tilvikum tekist að rekja og uppræta slíkar sýkingar og smitferli, en ekki öllum og reynslan sýnir hversu lítið þarf til að hópsýking brjótist út sem kallar á harðar innanlands aðgerðir með tilheyrandi skerðingu persónubundinna réttinda og takmarkanna á atvinnurekstri með efnahagslegum samdrætti hjá einstaklingum og fyrirtækjum.

Skiptir þetta máli? Fram til þessa hafa 29 einstaklingar látist í kjölfar a COVID-19 sýkingar, 331 hafa þurft á sjúkrahúsinnlögn að halda vegna alvarlegra og í sumum tilfellum lífhótandi veikinda og 53 hafa lagst inn á gjörgæslu. Af þeim 6258 einstaklingum sem hafa fengið staðfest smit berast fregnir um töluverðan hóp sem á langvarandi heilsuvanda að stríða. Þá er ótalið hin truflandi áhrif sem sóttkví tæplega 50 þúsund einstaklinga hefur haft á atvinnulífið.

Nýtt afbrigði

Tíðar stökkbreytingar sýkilsins skapa óvissu og gerir það að verkum að stöðugu ástandi er erfitt að ná og enn erfiðara að halda. Þetta kallar á virka viðbragðsáætlun og endurskoðun á nálgun þar sem breyturnar eru bæði mannleg hegðun og eiginleiki veirunnar á hverjum tíma. Bent hefur verið á að sýkingarmáttur breska veiruafbrigðisins sem var að hasla sér völl hérlendis kalli á hertar sóttvarnaraðgerðir.[3] Veiran er nú meira smitandi, sem þýðir að það er meira veirumagn framleitt í öndunarveginum. Í nágrannalöndunum hefur sýnt sig að hver einstaklingur, sem er smitaður smitar fleiri en eldri afbrigðin. Afleiðingar erlendis hafa verið að efnahagur landanna hefur farið enn frekar á hliðina og áhrif á daglegt líf stóraukist með t.d. útgöngubanni og niðurskrúfun samfélagslegrar þjónustu að því marki sem óþekkt er hérlendis. Það kom því ekki á óvart að sóttvarnalæknir legði til hertari aðgerðir á landamærum og heilbrigðisráðherra brygðist við með setningu reglugerðar um takmarkaða en aukna afkvíun ferðalanga við landamærin að eðli til sambærilega við nágrannalöndin og ekki verður annað séð enn að standist þarlend sóttvarnalög og skilyrði Alþjóðaheilbrigðisreglugerðarinnar.

Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu um páskana að reglugerð heilbrigðisráðherra um sóttvarnahús ætti sér ekki lagastoð í sóttvarnalögum. Það er auðvitað grafalvarlegt mál að í ljós skuli hafa komið að jafn nauðsynlegar aðgerðir og sú að ferðamenn skuli fara í sóttvarnahús, þegar þannig ber undir og þörf er á reyndist ekki hafa lagastoð. Það hlýtur því að vera brýnt að Alþingi, ef heilbrigðisráðherra gerir það ekki sjálfur, taki málið til skoðunar og tryggi það að sóttvarnaryfirvöld hafi allar þær lagaheimildir sem taldar eru nauðsynlegar til að grípa til allra þeirra aðgerða sem teljast vera nauðsynlegar hverju sinni. Ekki hvað síst vegna þess að sagan sýnir að búast má við nýjum og hættulegum farsóttum á hverjum áratug og horfa verður til lengri framtíðar og umfram glímuna við Covid-19 í þessu efni. Íslendingar eiga skilið að búa við ekki síðri sóttvarnarheimildir í lögum en nágrannar okkar og frændur.

Bólusetning og seigla

Bólusetningahlutfall gegn covid-19 fer hækkandi í áhættuhópum en nokkuð er í land sem krefst en ströngustu árvekni og seiglu einhverjar vikur enn. Reikna má með að nýgengi við landamærin sveiflist með breytum í heimalandi ferðalanganna og hlutfalli þeirra sem koma frá löndum þar sem tíðnin er há. Ákvarðanir um tilslakanir á landamærum verða því að taka mið af slíku fremur en því sem er að gerast hér innanlands a.m.k. þar til hlutfall bólusettra er orðið fullnægjandi til að dempa smit sem sleppa í gegn. Bólusetning skilar fyrst og fremst verndandi áhrifum fyrir alvarleg veikindi hjá einstaklingnum sjálfum en fullnægjandi samfélagsleg þýðing lætur bíða eftir sér þar til hlutfall bólusettra fer hækkandi. Bresk stjórnvöld sem hafa hæst hlutfall bólusettra telja að það markmið sé í nánd. Fram til þess tíma verður að stemma með öllum skynsamlegum úrræðum aðflæði nýrra smita frá landamærunum og kinnroðalaust grípa til þeirra úrræða sem vernda heilbrigði einstaklinganna og lýðheilsu samfélagsins. Það er því full ástæða fyrir stjórnvöld til að gæta varúðar við að létta á kröfum á landamærum nú um stundir og halda áfram að sýna þá yfirvegum sem einkennt hefur framgöngu þeirra.

 

[1] Már Örlygsson. Nýgengi COVID-19 smita á landamærunum per 100.00 farþega. Vefsíðugögn sótt 11. Apríl 2021. https://docs.google.com/spreadsheets/d/1xtBzqgChgnJDJLU9pnR0_U6rbYm1ZUMSdGFJpvZjecQ/edit#gid=2032904302

[2] European Centre for Disease Prevention and Control. Vefsíðugögn sótt 11. apríl 2021 https://www.ecdc.europa.eu/en/covid-19/situation-updates/weekly-maps-coordinated-restriction-free-movement

[3] Magnús Gottfreðsson. Sýkingarmáttur veirunnar kallar á hertar aðgerðir. Viðtal á þann 6. apríl 2021. Vefsíðugög ruv.is https://www.ruv.is/frett/2021/04/06/sykingarmattur-veirunnar-kallar-a-hertar-adgerdir?fbclid=IwAR2IhiZUNFBR62RHsHMVnC2L8jb1IYX0_yjF4e7JM-a40Pm_OCsIVUEqMUA