11. tölublað Læknablaðsins er komið út

„Þarna sáum við 90 hermenn með sprengjuáverka, opin beinbrot og skaða á mjúkvefjum á öðrum spítalanum og brunadeild annars spítala var svo full af brenndum og særðum hermönnum,“ segir Hilmar Kjartansson, bráðalæknir og einn stofnenda Kerecis, sem var í sóttkví þegar Læknablaðið ræddi við hann eftir að hafa sinnt stríðshrjáðum mönnum sem börðust um Nagorno-Karabakh í Suður-Kákasus; svæði sem er bitbein Armena og Asera.

„Ég hef séð viðlíka áverka í Ástralíu, Nýja-Sjálandi og hér á landi í þjálfun minni en ekki í þessum mæli.“ Viðtalið við Hilmar er í nýútkomnu 11. tölublaði Læknablaðsins. Viðtalið hefur þegar vakið athygli annarra miðla, eins og sjá má hér.

Þetta 11. tölublað er það stærsta sem komið hefur út lengi. Fjöldi viðtala er í blaðinu. Þar á meðal við Önnu Björgu Jónsdóttur yfirlækni á Landakoti og kennslustjóra í öldrunarlækningum við Háskóla Íslands og Arnar Geirsson yfirlæknir hjartaskurðdeildar Yale. Forsíðan er einnig eftirtektaverð en hana málaði Þrándur Þórarinsson fyrir Læknablaðið á hörstriga.

Athyglisverð fræðigrein félagsfræðinganna Margrétar Einarsdóttur og Ástu Snorradóttur um geðræna líðan íslenskra ungmenna er í blaðinu. Niðurstaða hennar er að stelpur sem vinna mikið með skóla eru líklegri til að finna stundum eða oft fyrir geðrænni vanlíðan en stelpur sem vinna ekki með skóla en engin tengsl mælast í hópi drengja. Sjá hér.

Sagt er frá jafnréttisstefnu sem sett hefur verið hjá Læknafélag Íslands á fréttasíðu. Þar er einnig farið yfir fyrirlestur Elíasar S. Eyþórssonar, sérnámslæknir í lyflækningum á Landspítala, á árlegri uppskeruhátíð vísindastarfs hjá Landspítala þann 7. október, Vísindi að hausti. Þar kom fram að 41% smitaðra fékk hita yfir 38 gráður vegna COVID-19 veikinda á tímabilinu 17. mars til 30. apríl og innan við helmingur, 47%, fékk hita yfirhöfuð. Fréttin í Læknablaðinu hefur einnig vakið athygli annarra miðla, eins og sjá má hér.

 

  • Sjáðu grein Daníels Guðbjartssonar um hvort minnkað interferon ónæmissvar leiði til alvarlegri veikinda vegna COVID-19 hér
  • Lestu grein Stefáns Sigurkarlssonar: Plágan og Barrington hér
  • Sjáðu orð Guðrún G. Björnsdóttir bráðalæknis í Glasgow hér
  • Skoðaðu allar greinarnar á vef Læknablaðsins.