1. tölublað Læknablaðsins 2021 komið út

Fyrsta Læknablað nýs árs er komið út og það fyrsta sem Helga Ágústa Sigurjónsdóttir, sérfræðingur í lyflækningum og innkirtla og efnaskiptalækningum, ritstýrir. Í leiðara hennar bendir hún á að blaðið hafi frá upphafi haft áhrif langt út fyrir raðir lækna og hafi á síðustu árum tekið nútímalegum breytingum undir dyggri stjórn fráfarandi ritstjóra, Magnúsar Gottfreðssonar. 

„Það er því með miklu stolti sem ég tek við starfi ritstjóra Læknablaðsins, fyrst kvenna, sem einnig er merkilegt þegar svo langt er komið inn í 21. öldina og íslenskir kvenlæknar hafa fyrir svo löngu stigið merk skref í lækningum og vísindum. Kristín Ólafsdóttir var fyrsta konan sem útskrifaðist frá læknadeild Háskóla Íslands, 1917. Það er því viðeigandi að hún prýði forsíðu fyrsta tölublaðsins í minni ábyrgð,“ ritar hún.

Margt er í fyrsta blaði ársins, meðal annars viðtal við Magnús Gottfreðsson fráfarandi ritstjóra sem bendir á að sagan sýni að við lærum mest af mistökum. „[Þ]annig að ef við sleppum tiltölulega vel frá þessum faraldri erum við ekki jafn líkleg til þess að læra af honum,“ segir Magnús um kófið. Hann ræðir fjárhagsþörf og niðurskurð í heilbrigðiskerfinu. Stjórnmálamenn eigi erfitt með að standa við loforð um að efla kerfið, jafnvel þó að þeir lýsi því hátíðlega yfir að setja málið á oddinn. 

„Á sama tíma upplifum við hér á spítalanum, sem hefur verið meira og minna í krónískri krísu frá því að spítalarnir voru sameinaðir, að gengið sé fram með óraunhæfum kröfum um niðurskurð,“ segir hann. „Maður er hugsi yfir yfir þessu í ljósi þess sem á undan er gengið.“

Þrjár fræðigreinar eru í blaðinu:

Súsanna Björg Ástvaldsdóttir, umdæmislæknir sóttvarna á Vestfjörðum, fer yfir kófið fyrir vestan og málefni útgerðar Júlíusar Geirmundssonar.

Hannes Petersen, háls-, nef- og eyrnalæknir og prófessor við Læknadeild HÍ, fer yfir dag í lífi HNE-læknis á Akureyri á aðventunni og við hitum upp fyrir Læknadaga með viðtali við Guðrúnu Ásu Björnsdóttur og Berglindi Bergmann um tækninýjungar og Hans Tómasi Björnssyni um stöðu íslensks vísindastarfs. Einnig Hannes Hrafnkelsson, heimilislæknir á Seltjarnarnesi, sem ræðir um mikilvægi D-vítamíns.