Reykjavíkuryfirlýsingin samþykkt á aðalfundi WMA

Alþjóðasamtök lækna, World Medical Association, hafa að frumkvæði Læknafélags Íslands samþykkt yfirlýsingu (e. Declaration) um erfðalækningar. Yfirlýsingin er kennd við Reykjavík í virðingarskyni við það öfluga starf á sviði erfðavísinda sem fram fer á Íslandi auk þess sem fyrstu drög að yfirlýsingunni voru samþykkt á aðalfundi samtakanna sem fram fór í Reykjavík haustið 2018. Endanleg útgáfa yfirlýsingarinnar var samþykkt á aðalfundi WMA sem haldinn var í Tbilisi í Georgíu 26. október sl. 

Á undanförnum tveimur árum hefur verið unnið að endurskoðun á áliti um erfðalækningar með aðaláherslu á siðfræði þeirra. Fyrir lá álit (Statement) sem ákveðið var að víkka og auka og liggur núna fyrir sem yfirlýsing (Declaration) sem hefur meira vægi. Vinnuhópur undir forystu Andreas Rudkøbing formanns Danska læknafélagsins, og síðar Reynis Arngrímssonar, formanns LÍ , lagði hin endanlegu drög fyrir aðalfundinn. 

Megininntak Reykjavíkuryfirlýsingarinnar snýst um leiðbeiningar um siðferðileg sjónarmið varðandi notkun erfðafræði, erfðarannsókna og erfðatækni í heilbrigðisþjónustu. Það er álit samtakanna að aukin hagnýting erfðafræði og erfðalækninga muni hafa mikla þýðingu í forvörnum og meðferð sjúkdóma á komandi árum. Vakin er jafnframt athygli á því hve erfðafræðilegar upplýsingar geti verið viðkvæmar og um leið hve mikilvægt sé að virða þagnarskyldu og friðhelgi einkalífsins ásamt því að fyrirbyggja hugsanlega mismunun í heilbrigðisþjónustu.

Tilmælin leggja ákveðnar skyldur á herðar þeirra sem veita erfðaheilbrigðisþjónustu varðandi trúnað, fagmennsku og upplýsingaskyldu.

Yfirlýsingin segir að erfðarannsóknir eigi fyrst og fremst að gera í þágu sjúklinga. Áhersla er lögð á að virða beri sjálfsákvörðunarrétt og óskir þeirra. Erfðapróf eða erfðameðferð skal aðeins fara fram með upplýstu samþykki sjúklings. Þá eru í yfirlýsingunni tilmæli varðandi meðferð erfðaupplýsinga sem geta skipt sköpum fyrir ættingja og óvæntar niðurstöður sem eru upplýsandi fyrir áhættu á öðrum sjúkdómum en erfðagreiningin beinist að.

Auk leiðbeininga um erfðarannsóknir í heilbrigðisþjónustu og erfðagreiningar fjallar yfirlýsingin um siðfræðileg viðmið við genameðferð. Yfirlýsingin er afdráttarlaus um andstöðu Alþjóðasamtaka lækna gegn klónun úr mönnum eða klíniskri nýtingu á erfðatækni til breytinga á fósturfrumum og kímlínufrumum manna. 

Yfirlýsingin var samþykkt undir ensku fyrirsögninni “WMA Declaration of Reykjavík - Ethical considerations regarding the use of genetics in health care.”

Reykjavíkuryfirlýsinguna í heild sinni má lesa HÉR