Vottorðagerð taki tíma heimilislækna frá skjólstæðingum

Heimilislæknar skora á heilbrigðisráðherra að láta endurskoða tafarlaust fyrirkomulag útgáfu læknisvottorða hér á landi. „Útgáfa vottorða er orðin íþyngjandi í starfi heimilislækna og tekur dýrmætan tíma frá nauðsynlegri læknisþjónustu við skjólstæðinga,“ segir í ályktun sem aðalfundur Félags íslenskra heimilislækna samþykkti.

Salóme Ásta Arnardóttir, formaður Félags íslenskra heimilislækna, segir ekki sjálfsagt að læknar sem starfa undir almannatryggingakerfinu sinni vottorðaskrifum fyrir fyrirtæki og stofnanir sem óska þess. Læknum sé ætlað að rita vottorð sem jafnvel sé óskað eftir vegna formgalla í kerfum stofnanna.

„Nefna má þegar háskólinn þurfti að fresta prófi um jól vegna veður og óskar hann samt eftir því að nemendur sæki sér vottorð til að komast í sjúkrapróf.“ segir Salóme. Hún nefnir einnig tíma sem fari í vottorðagerð fyrir tryggingafélög. „Tryggingafélög eru stór fyrirtæki og ættu að hafa lækna á sínum snærum í gerð þessara vottorða.“

Ályktun félagsins um vottorð hljóðar svo:

Aðalfundur Félags íslenskra heimilislækna, haldinn í Kópavogi og fjarfundi þann 17.10.2020, skorar á Heilbrigðisráðherra að láta endurskoða tafarlaust fyrirkomulag útgáfu læknisvottorða hér á landi. Útgáfa vottorða er orðin íþyngjandi í starfi heimilislækna og tekur dýrmætan tíma frá nauðsynlegri læknisþjónustu við skjólstæðinga.

Í greinargerð með ályktuninni segir að hinar ýmsu stofnanir, tryggingafélög, lífeyrissjóðir, lögfræðingar og fleiri aðilar, fari stöðugt fram á hin ýmsu vottorð. 

„Stærstur hluti heilbrigðiskerfisins er innan almannatrygginga og eðlilegt að settar séu skýrar reglur um hvað skuli votta þaðan og hvað ekki. Við skerum okkur úr í samanburði við nágrannalöndin varðandi þessi mál og allt of mikill tími margra lækna hér á landi fer í að gera vottorð. Í stað þess að taka á þessum málum gefur ráðuneytið út gjaldskrá án samráðs við Læknafélagið sem er jafnframt úr takti við aðrar gjaldskrár annarra vottunaraðila, svo sem lögfræðinga og verkfræðinga. Nær væri að taka frekar á þessum málum af festu.“

Í greinargerðinni segir einnig að hér á landi virðist utanaðkomandi aðilar geta farið fram á ýmislegt. „Nýlegt dæmi er að tryggingafélag sendi skjólstæðinga með bréf frá félaginu um að framkvæma ítarlega skoðun, taka hjartalínurit og þvagrannsókn. Með bréfinu fylgir 4 síðna spurningalisti frá félaginu sem læknir á að fylla í. Skjólstæðingar hafa verið að bóka sjálfir tíma á heilsugæslum og mæta með þessi gögn.“

Um sé að ræða skoðun og rannsóknir sem tryggingafélagið eigi sjálft að sjá um en ekki að senda á heilsugæslu í tíma hjá lækni án nokkurs samkomulags um slíkt. „Sú þjónusta er greidd af almannatryggingakerfinu og fellur þessi vinna ekki undir það. Tryggingafélög virðast ganga lengra og lengra í þessum efnum.“ Þetta sé jafnframt hluti af stærra vandamáli hér á landi varðandi vottorð til atvinnurekanda, tryggingafélaga, skóla og lögfræðinga. 

„Skortur er á heimilislæknum og fleiri sérgreinalæknum, biðtími er oft nokkrar vikur eftir tímum og undanfarin ár hafa komur á Læknavaktina stöðugt aukist. Til dæmis í Svíþjóð viðgengst þetta ekki. Þar geta tryggingafélög og lögfræðingar ekki farið fram á vottorð. Heimild var til að senda aðilum afrit af sjúkraskrá að uppfylltum skilyrðum. Þar er vinnuveitendum og skólum jafnframt ekki heimilt að fara fram á vottorð nema að veikindi stæðu yfir í meira en viku.“

Sem dæmi héðan þá sé Háskóli Íslands endurtekið að vísa nemendum á heilsugæslur til að fá vottorð. „Gengið er svo langt að verið er að fara fram á vottorð frá HÍ þar sem til dæmis nemendur eiga að fara í 2 próf sama dag og skrifstofa skólans vísar á heilsugæsluna að fá veikindavottorð þó ekki séu veikindi að baki.“

Annað dæmi frá HÍ er eftirfarandi sem barst lækni í pósti síðastliðinn vetur:

„Mig vantar læknisvottorð, heimilislæknirinn minn er ******. Ég er nemi í HÍ og sökum slæms veðurs í vikunni var próf fellt niður og fært á þann 17. [d]esember, en þá verð ég erlendis. mér var bent á af HÍ að fá vottorð svo ég gæti mætt í sjúkrapróf fyrir þau próf sem ég missti af.“

Heimilislæknar benda á að heilsugæslan hafi nóg annað að gera!

Salóme bendir á, eins og greinargerðin, að ef tekið sé á þessum vanda myndi það létta á vinnu meðal annars í heilsugæslu hér á landi sem og á vöktum. „Þá gæfist meiri tími til að sinna læknisverkum.“

Félag íslenskra heimilislækna er reiðubúið til samstarfs um lausnir á vandanum.