Vilja fastráða geðlækni fyrir austan

Auglýst er eftir geðlækni í fast starf hjá Heilbrigðisstofnun Austurlands í nýútkomnu Læknablaðinu. Pétur Heimisson, framkvæmdastjóri lækninga hjá stofnuninni, segir að verði ráðið í stöðuna þá verði það fyrsti fastráðni geðlæknirinn sem taki til starfa hjá stofnuninni.

„Hitt er annað mál að hingað hafa komið geðlæknar í gegnum árin mismunandi þétt og reglulega og gegnt mikilvægu hlutverki. En þetta er í fyrsta sinn sem við reynum að ráða geðlækni sem hluta af föstu starfsliði,“ segir hann og lýsir því að samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu sé það hlutverk heilbrigðisstofnana eins og HSA úti á landi að sinna almennri heilbrigðisþjónustu, en þjónusta geðlækna sé hluti sérgreinalæknisþjónustu.

„Þörf fyrir þjónustu ýmissa sérgreinalækna er það almenn og regluleg að æskilegt væri að íbúar landsbyggðarinnar hefðu aðgang að henni með reglulegum og föstum hætti. Þar eru geðlækningar efst á blaði,“ segir Pétur. Heilbrigðisþjónusta sé fyrir fólkið og verði að taka mið að þörfum þess.

„Geðrænn vandi er um þriðjungur ástæðna þess að fólk leitar til heilsugæslunnar. Það er ekki ástæða til að ætla að það sé öðruvísi úti á landi en á höfuðborgarsvæðinu. Það er samt þannig að íbúar dreifbýlis, eins og Austurlands, nota sérgreinaþjónustu þrisvar sinnum sjaldnar en íbúar höfuðborgarsvæðisins.“ Ástæðan sé líklega sú að þjónusta sérgreinanna hafi byggst upp í borginni.

 Í auglýsingunni er óskað eftir því að geðlæknirinn móti starf sitt sem hluta af þjónustu heilsugæslu í íslensku dreifbýli, með það að markmiði að bjóða rétta þjónustu á réttum tíma og og á réttum stað.

„Við væntum þess að geðlæknirinn hjálpi okkur að finna hvað hentar báðum. Eitt er að vera í 100% starfi og vera alltaf á svæðinu. Annað að vera í minna starfshlutfalli, vera reglulega á svæðinu og nýta fjarheilbrigðisþjónustu þess á milli,“ segir Pétur. 

 „Það er eitt af því sem við nefnum í auglýsingunni líka. Þátttaka í þróun og framkvæmd fjargeðheilbrigðisþjónustu.“ Hann bendir á að ýmsir sérgreinalæknar hafi stigið sterkt inn í tæknina núna á kórónuveirutímum. 

 „Ég hef orðið var við vaxandi áhuga lækna og annarra fagstétta á því að nýta þetta verkfæri.“ Fjarheilbrigðisþjónustan sem hluti af geðlæknisþjónustu krefjist hins vegar reglulegrar viðveru. 

„Við erum bjartsýn á að margir sýni starfinu áhuga og máti við áherslur sínar í leik og starfi. Vonandi sækja margir um.“ 

Ellefu þúsund íbúar eru á þjónustusvæði stofnunarinnar sem rekur 11 starfsstöðvar, Umdæmissjúkrahús Austurlands í Neskaupstað og þrjár hjúkrunardeildir. Staðan veitist frá 1. júlí næstkomandi. Kjör eru samkvæmt kjarasamningi fjármálaráðherra og Læknafélagsins.

Sjáðu auglýsinguna í Læknablaðinu.

Mynd/Læknablaðið