Viðtal við formann heimilislækna: Gervigreind gagnlegt verkfæri – en kemur ekki í stað lækna

Í nýlegu viðtali á RÚV 11. nóvember ræðir Gunnar Þór Geirsson, formaður Félags íslenskra heimilislækna, um hlutverk gervigreindar í heilbrigðiskerfinu. Hann segir gervigreind geta verið gagnlegt verkfæri – en undirstrikar að hún geti aldrei komið í stað lækna og annarra heilbrigðisstarfsmanna.

„Gervigreind getur verið gott verkfæri,“ segir Gunnar Þór. „En eins og með önnur verkfæri er ekki hægt að treysta á þau eingöngu. Það er mikilvægt að leita sér aðstoðar og álits hjá læknum og öðru heilbrigðisstarfsfólki líka.“

Í viðtalinu kemur einnig fram að dæmi séu um að fólk noti gervigreindarforrit til að greina heilsufarsvandamál, sérstaklega þegar bið eftir læknisþjónustu er löng. Gunnar Þór varar við þeirri þróun og bendir á að fagleg greining og meðferð sé ómissandi hluti af öruggri heilbrigðisþjónustu.

„Það er ekki hægt að treysta eingöngu á gervigreind, sérstaklega þegar kemur að flóknum heilsufarsvandamálum,“ segir hann og hvetur fólk til að leita til heilbrigðisstarfsfólks þegar þörf krefur.