Viðhaldsmenntun lækna í uppnámi

LÍ hefur sent forstjórum heilbrigðisstofnanna og sjúkrahúsa bréf varðandi námsleyfi til viðhaldsmenntunar lækna sem hafa verið í uppnámi á þessu ári vegna COVID-19. Settar hafa verið hömlur á námsleyfisferðir á þessu ári. LÍ hefur fullan skilning á því en telur að stofnanir verði þá að gæta þess að námsleyfi sem læknar geta ekki tekið á þessu ári fyrnist ekki heldur verði þeim gert mögulegt að taka þau á næstu misserum.

Afnám fyrningar á námsleyfum um sinn hjálpar hins vegar ekki þeim hópi lækna sem breyta um vinnustað á árinu eða hætta í starfi vegna aldurs. Reglan er sú að þegar læknar breyta um vinnustað verða þeir að hafa tekið áunnið námsleyfi áður en þeir hætta á vinnustaðnum, ella fellur áunninn námsleyfisréttur niður. Námsleyfisrétturinn flyst ekki með lækni yfir á nýja vinnustaðinn. Með sama hætti hefur framkvæmdin verið sú að læknir sem er að hætta störfum vegna aldurs verður fyrir starfslok að hafa tekið út áunnið en ótekið námsleyfi, ella fellur rétturinn niður við starfslok. Frestun á fyrningu námsleyfis kemur þessum hópi því að engu gagni. Eins og segir í bréfi Reynis Arngrímssonar, formanns vill LÍ leggja áherslu á að:

  1. Að stofnanir beiti ekki fyrningarákvæðum gagnvart námsleyfum á næstu misserum, enda eru námsleyfi kjarasamningsbundinn réttur og kjarasamninga ber að virða.
  2. Að sá hópur lækna sem breytir um vinnustað á árinu eða hættir í starfi vegna aldurs fái annað hvort leyfi til að taka áunnið en ótekið námsleyfi fyrir starfslokin á árinu 2020 en ella að áunninn námsleyfisréttur verði greiddur út til þeirra þegar starfi lýkur.

Eins og áður segir eru námsleyfi kjarasamningsbundinn réttur. Endurmenntun lækna skiptir máli fyrir gæði og framþróun heilbrigðisþjónustunnar og öryggi sjúklinga og það er mikilvægt að þessi réttur sé virtur í hvívetna.

Vonast LÍ eftir jákvæðum viðbrögðum við erindi þessu.