Við áramót 2025-26
Það er aldrei lognmolla á vettvangi Læknafélags Íslands og var árið 2025 þar engin undantekning.
Fyrirferðamest á árinu var án efa innleiðing nýs kjarasamnings og betri vinnutíma lækna, sem tók gildi 1. apríl 2025. Óhætt er að segja að um viðamikla kerfisbreytingu sé að ræða og reyndist innleiðingin oft og tíðum flókin fyrir stofnanir og höfðu þær í mörg horn að líta. Óhjákvæmilega komu upp ýmsir agnúar og álitamál varðandi framkvæmd breytinganna, vörpun í nýja launatöflu, fyrirkomulag vakta, útfærslu styttingarinnar, greiðslu fyrir yfirvinnu, frítöku o.sv.fr. Enn er verið að vinna að mörgum þessara mála og mikilvægt að læknar hafi samband við félagið telji þeir ekki hafi verið staðið rétt að innleiðingu samningsins. Viðbúið var að fyrstu mánuðirnir í nýju kerfi yrðu krefjandi og ljóst er að enn er ekki búið að hnýta alla lausa enda hvað framkvæmdina varðar.
Í lok árs vakti athygli umfjöllun fjárlaganefndar um kjarasamning lækna. Svo virðist sem heilbrigðisstofnunum hafi ekki verið bættur samningurinn að fullu og ber þar töluvert á milli. Ef ekki verður brugðist við þeim skorti á fjárveitingum vegna samningsins sem nú blasir við er auðséð að stofnanir standa margar frammi fyrir umtalsverðri hagræðingarkröfu til að mæta þessum aukna kostnaði.
Það var alveg ljóst að í upphafi samningstímans myndi kostnaður við yfirvinnu lækna aukast vegna mönnunargats, sem jókst við styttingu vinnuvikunnar. Aðilar beggja vegna samningaborðsins voru sammála um að á samningstímanum þyrfti að leita allra leiða til að draga úr þessu mönnunargati og fá fleiri lækna til starfa hérlendis. Í þessum skrifuðu orðum liggur ekki fyrir hvernig á að fjármagna þá fjölgun, sem gróft reiknað yrði töluvert dýrari en núverandi kostnaður vegna yfirvinnu lækna. Það skýtur skökku við að menn lýsi sig reiðubúna að fjölga læknum, með tilheyrandi kostnaði, en séu hins vegar ekki reiðubúnir að bæta stofnunum þann kostnað við yfirvinnu sem óhjákvæmilega fellur til á meðan verið er að vinna á mönnunargatinu.
Á samningstímanum á einnig að vinna að betri nýtingu á tíma lækna og tryggja að læknar fái þann stuðning sem þarf til að sérþekking þeirra nýtist sem best. Slíkur stuðningur getur m.a. falist í tilfærslu verkefna til annarra fagstétta, sem má þó aldrei gerast án samvinnu og samtals við lækna. Eins þarf að halda áfram að grysja þær íþyngjandi skriffinnskukröfur sem lagðar eru á herðar lækna og bæta rafrænt starfsumhverfi þeirra. Stjórnvöld hafa á liðnu ári stigið nokkur ákveðin skref í þessa átt. Mikilvægt er að sú vegferð sé í algerum forgangi á nýju ári. Miklar vonir eru bundnar við verkefnið „Stafræn heilsa“ sem hefst nú í janúar innan veggja heilbrigðisráðuneytisins, enda seint of mikil áhersla lögð á þau gríðarlegu sóknarfæri sem felast í betri nýtingu tækni og nýsköpunar á sviði heilbrigðisþjónustu.
Margar heilbrigðisstofnanir eru einnig langt á veg komnar með aðgerðaráætlanir til að bæta starfsumhverfi lækna sem hjá þeim starfa. Það er lykilatriði að stofnanirnar fái svigrúm til að halda þeirri vinnu áfram fremur en að stíf hagræðingarkrafa strax í upphafi setji breytingarnar á ís. Breytingar sem enginn vafi er um að ráðast þarf í eigi læknisþjónusta hérlendis að vera sjálfbær til framtíðar.
Læknar leituðu mikið til félagsins á árinu vegna ýmissa ágreiningsefna sem upp komu á vinnustöðum þeirra, en einnig vegna samskipta við eftirlitsaðila og stjórnvöld. Vorið 2025 kom upp sú fordæmalausa staða að yfirvöld lækkuðu hlutfall launa læknanema af launum nýútskrifaðs læknis, úr 90% niður í 80% fyrir nema eftir 5. ár og úr 80% í 75% fyrir nema eftir 4. ár. Þetta hafði þær afleiðingar að læknanemar nutu ekki sömu kjarabóta af nýjum kjarasamningi og útskrifaðir læknar. LÍ mótmælti þessari framkvæmd harðlega, enda kom í ljós að laun læknanema sem lokið höfðu 4. ári náðu ekki lágmarkshækkun á vinnumarkaði (hækkun þeirra nam einungis 1,7%) og laun læknanema sem lokið höfðu 5. ári lækkuðu beinlínis miðað við árið á undan. Þetta fékkst leiðrétt, en þó eingöngu að hluta og eftir töluverð átök. Stjórn LÍ vinnur nú með stjórn Félags læknanema að því að bæta samningsstöðu læknanema til framtíðar, enda ótækt að hópurinn sé varnarlítill gagnvart einhliða ákvörðunum stjórnvalda af þessu tagi.
Fleiri blikur voru á lofti á árinu í kjaramálum lækna og þá sérstaklega varðandi verktöku á landsbyggðinni. Heilbrigðisráðuneytið sendi bréf á heilbrigðisstofnanir þar sem þeim var gert að stöðva það sem ráðuneytið skilgreinir sem „gerviverktöku“ og er í þessum skrifuðu orðum enn nokkuð óljóst hvað felur í sér. Áður hafði fjármála- og efnahagsráðuneytið sent sambærilegt bréf til allra stofnana. Af augljósum ástæðum mun þessi óvissa þyngja mjög róðurinn hvað varðar tímabundnar afleysingar lækna og hefur Læknafélagið miklar áhyggjur af mönnun á landsbyggðinni í kjölfar fyrirmæla ráðuneytanna. Eins hafa verktakalæknar ekki notið sömu kjarabóta og læknar sem starfa eftir kjarasamningi LÍ og ríkisins. Verktakataxtar hafa ekki hækkað þrátt fyrir umtalsverðar launahækkanir á árinu, aukna frítöku vegna viðbragðsvakta, sérstakar greiðslur fyrir símtöl og styttingu vinnuvikunnar. Á sama tíma og stofnunum er gert erfiðara fyrir að ráða tímabundið til sín íslenska verktakalækna virðist í lagi að heilbrigðisstofnanir manni læknastöður með verktakalæknum á vegum erlendra starfsmannaleiga. Það er óskandi að höggvið verði á þennan hnút með ásættanlegum hætti á nýju ári, enda hefur verktaka íslenskra lækna verið mjög mikilvægur hlekkur í mönnun heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni um árabil.
Sjálfstætt starfandi læknar stóðu frammi fyrir fleiri áskorunum á árinu en tíundaðar voru hér að ofan. Ferliverk á stofnunum á landsbyggðinni, meðal annars á Sjúkrahúsinu á Akureyri, voru sett í uppnám án þess að í sjónmáli væri önnur raunhæf leið til að sinna þeim fjölmörgu læknisverkum sem þannig hefur verið sinnt um áratuga skeið. Í heilbrigðisráðuneytinu var unnið að drögum að frumvarpi um sjúkratryggingar þar sem í upphafi var m.a. gert ráð fyrir að Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) gætu einhliða sett gjaldskrá í samningsleysi, sjálfstætt starfandi læknum yrði gert að breyta félagaformi sínu úr samlagsfélögum í einkahlutafélög með tilheyrandi kostnaði og yrði einnig gert að veita SÍ allar þær upplýsingar um rekstur sinn sem SÍ kynni að sækjast eftir – sem er mun lengra gengið en gagnvart öðrum rekstraraðilum sem gera samninga við ríkið. Þétt samtal Læknafélags Reykjavíkur við ráðuneytið hefur átt sér stað í kjölfar þessara áforma og er enn í gangi þegar þetta er ritað.
Því miður eiga neikvæðar fréttir og atvik það til að standa upp úr þegar horft er yfir farinn veg. Margt jákvætt gerðist þó árið 2025 sem vert er að minnast á. Dagur lækna var haldinn hátíðlegur í annað sinn 17. maí 2025 og tóku margir vinnustaðir lækna sig til og minntust dagsins með ýmsum hætti. Á nýju ári er stefnt að því að bjóða læknum á viðburð í tilefni dagsins þar sem horft verður til þess sem vel er gert innan stéttarinnar. Læknadagar 2025 voru að vanda mjög veglegir og vöktu verðskuldaða athygli víða í samfélaginu. Það er ómetanlegt fyrir lækna að eiga þennan fasta innlenda vettvang símenntunar og skoðanaskipta og hvet ég lækna til að fjölmenna á Læknadaga 2026 sem hefjast 19. janúar nk.
Á aðalfundi LÍ í Stykkishólmi s.l. haust var haldin sérstök vinnustofa um faghlutverk LÍ þar sem aðalfundarfulltrúar settu mjög skýra fagstefnu sem stjórn félagsins mun hrinda í framkvæmd á næstu misserum. Töldu fulltrúar fundarins að á vettvangi LÍ ættu læknar að koma að marklýsingum og skipulagi sérnáms, símenntun lækna, faglegum verkferlum og vegvísum, klínískum leiðbeiningum, umsögnum um frumvörp og lagabreytingar og fræðslu og upplýsingamiðlun til almennings, auk þess að taka þátt í opinberri umræðu um heilbrigðismál. Þessi vinna mun að miklu leyti hvíla á sérgreinafélögum lækna, enda krefst hún djúprar þekkingar í hverri sérgrein fyrir sig, en LÍ mun á móti auka almennan stuðning við sérgreinafélögin og verða öflugri bakhjarl þeirra en verið hefur.
Ekki er hægt að ljúka þessum pistli án þess að minnast á umfangsmikla könnun sem Læknafélagið gerði meðal íslenskra lækna, sem starfa erlendis. Tilgangur hennar var að kortleggja betur hópinn í heild, fá tilfinningu fyrir því hvar læknarnir búa og starfa, í hvaða sérgreinum þeir hafa sérhæft sig og hvort hugur þeirra standi til þess að flytja aftur heim til Íslands á komandi árum. Þátttaka í könnuninni var góð og er óhætt að segja að aldrei hafi áður legið fyrir jafn góðar upplýsingar um þennan hóp og nú. Niðurstöður könnunarinnar munu birtast á heimasíðu LÍ á nýju ári og munu gögn úr henni nýtast með margvíslegum hætti, m.a. til að upplýsa stjórnvöld um leiðir til að auka aðdráttarafl Íslands sem aðlaðandi starfsvettvangs fyrir íslenska sérfræðilækna. Áhugavert var að sjá að laun og kjör voru ekki það sem íslenskum læknum sem búa erlendis var efst í huga varðandi störf hérlendis, heldur röðuðust atriði eins og starfsumhverfi og vinnuálag á heilbrigðisstofnunum, kostnaður íbúðarhúsnæðis og tækifæri til starfsþróunar í efstu sætin.
Margt fleira ávannst í starfi félagsins árið 2025 og hvet ég áhugasama til að kynna sér ársskýrslu félagsins til aðalfundar 2025 ef vilji er til að glöggva sig frekar á því.
Að lokum vil ég þakka stjórn Læknafélags Íslands, framkvæmdastjóra félagsins og öðru starfsfólki þess, læknum sem starfað hafa í þágu félagsins og félagsfólki öllu kærlega fyrir virkilega gott og ánægjulegt samstarf á liðnu ári. Starf LÍ var sérlega öflugt árið 2025 þökk sé öllu því frábæra fólki sem starfar fyrir félagið og því óhætt að horfa með bjartsýni fram á veginn á nýju ári.
Ég sendi læknum og ástvinum þeirra, sem og landsmönnum öllum, hugheilar nýárskveðjur og þakkir fyrir nýliðið ár.
Steinunn Þórðardóttir
Formaður LÍ
Læknafélag Íslands
Hlíðasmári 8, 201 Kópavogur - lis@lis.is
Afgreiðslutími
Mánudaga til fimmtudaga 9-16
Föstudaga 9-13