Ung­ir jafnaðar­menn taka undir ákall Læknafélagsins

Ung­ir jafnaðar­menn vilja sjá Alþingi kallað sam­an án taf­ar svo renna megi skýr­um laga­stoðum und­ir nauðsyn­leg­ar sótt­varn­ir á landa­mær­um. Þeir taka und­ir ákall sótt­varna­lækn­is og Lækna­fé­lags Íslands þess efn­is.

„Undanfarin misseri hafa vinnubrögð ríkisstjórnarinnar einkennst af hringli, flumbrugangi og samráðsleysi við sóttvarnayfirvöld. Þetta hefur sett sóttvarnir í uppnám og grafið undan sátt og samstöðu í samfélaginu,“ segir í ályktun þeirra. Nýlegur úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur um ólögmæta skyldudvöl í sóttvarnahúsi sé alvarlegasta dæmið um þetta.

„Nú er mál að linni. Ungir jafnaðarmenn taka undir kröfur sóttvarnalæknis og Læknafélags Íslands um að lagastoð fyrir ýtrustu sóttvörnum á landamærunum verði tryggð svo heilsu, frelsi og efnahagslegum hagsmunum landsmanna verði ekki stefnt í voða,“ segir í ályktuninni.

„Ungir jafnaðarmenn ítreka ákall sitt frá því í desember um að mynduð verði starfsstjórn ábyrgari stjórnmálaflokka fram að næstu Alþingiskosningum um stærstu hagsmunamál þjóðarinnar á þessum örlagatímum: öflugar sóttvarnir, öflun bóluefna og markvissari stuðning við atvinnuleitendur og þær atvinnugreinar sem hafa orðið verst úti í heimsfaraldrinum.“

Undir ályktunina ritar Ragna Sigurðardóttir forseti ungra jafnaðarmanna, 6. árs læknanemi og borgarfulltrúi. Hún var kjörinn forseti í september og gegnir hlutverkinu til haustsins 2022. Hún var áður í stúdentapólitíkinni og kosningastýra Samfylkingarinnar í síðustu borgarstjórnarkosningum.

„Ég tók pásu frá náminu núna í vetur. Er á sjötta ári og að fara að taka sjötta árs prófið,“ segir hún við fulltrúa vefjar Læknafélags Íslands. „Ég stefni að því að klára um næstu áramót og taka kandidatsárið í kjölfarið.“ Hún viðurkennir þó að pólitíkin togi.

„Það eru kosningar í borginni 2022. Ég hef ekki ákveðið hvert stefnir en sé þó helst fyrir mér á þessari stundu að hefja sérnámið í kjölfarið og vera með annan fótinn í pólití samhliða læknastarfinu. Ég er ekki tilbúin að sleppa læknisfræðinni eins og er, en finnst um leið gaman að hafa áhrif á samfélagið sem við búum í.“

Ályktun Ungra jafnaðarmanna má lesa í heild sinni hér.