Umskurður: Primum non nocere

"Umskurður drengja felur í sér brottnám á heilbrigðum vef og hættu á ýmsum fylgikvillum. Aðgerðin er í flestum tilfellum gerð af trúarlegum og/eða menningarlegum ástæðum á nýfæddum eða ungum drengjum en er sjaldnar beitt í læknisfræðilegum tilgangi. Rannsóknir á jákvæðum áhrifum umskurðar og leiðbeiningum sem styðja umskurð hafa verið gagnrýndar fyrir aðferðafræðilega galla og menningarlega hlutdrægni (cultural bias). Kerfisbundin yfirlitsgrein frá árinu 2010 sýnir að þekktir fylgikvillar umskurðar eru meðal annarra blæðing, sýking, skyntap, áverki á þvagrás, þrenging þvagrásarops, opnun sára og drep í getnaðarlim að hluta eða öllu leyti. Dauða í kjölfar umskurðar hefur einnig verið lýst." Þetta skrifa þau Jórunn Viðar Valgarðsdóttir heimilislæknir og Hannes Sigurjónsson lýtalæknir í grein í 3. tbl. Læknablaðsins 2018.