Tvöfalt heilbrigðiskerfi - það lakara fyrir konur

Breytingar á lyfjalögum fengu flýtimeðferð í skugga skammdegisins. Vegið er óþyrmilega að heilbrigðisþjónustu kvenna í skjóli myrkurs þegar Alþingi samþykkti að koma á tvöföldu heilbrigðiskerfi hér á landi.

Það ætti ekki að hafa farið fram hjá landsmönnum að verulegur faglegur ágreiningur hefur verið milli lækna annars vegar og heilbrigðisstjórnarinnar og Alþingis hins vegar um nokkurt skeið. Þar má nefna ýmis mál er varða lýðheilsu og velferð borgaranna, eins og viljaleysi til að taka á sölu á rafsígarettum til barna og unglinga, heimild til reykinga rafsígaretta á veitingastöðum, tillögur um tilslökun á áfengislöggjöfinni, upphafningu skottulækninga dulinna í búningi svokallaðra viðbótarmeðferða, blekkingar um gagnsemi fíkniefna í lækningaskyni, skerðingar á aðgengi og valfrelsi notenda að heilbrigðisþjónustu og blindu stjórnvalda varðandi ástand og þörf á uppbyggingu grunnheilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni.

Nýjasta útspil Alþingis er að gefa afslátt af þekkingu, gæðum og öryggi þegar kemur að lyfjaávísunum. Sú breyting hefur í för með sér að konur þurfa að sætta sig við að sækja lakari heilbrigðisþjónustu en læknar geta og hafa veitt. Í breytingunni felst innleiðing á sænsku kerfi sem hefur skilað daprari árangri í þjónustu sem hingað til hefur prýðilega verið sinnt af heimilislæknum og sérfræðingum í fæðinga- og kvensjúkdómum. Félag íslenskra kvensjúkdóma- og fæðingalækna skilaði umsögn um frumvarpið og taldi það óunnið. Ekki var hlustað á álit þessa hóps lækna sem best þekkir til stöðu mála.

Grein Reynis birtist á frettabladid.is og má lesa hana HÉR