Traustari innviði þarf fyrir áframhaldandi uppbyggingu sérnáms lækna

Áframhaldandi uppbygging framhaldsmenntunar í sérgreinum lækninga krefst traustari innviða en nú eru fyrir hendi, meðal annars margvíslegrar aðstöðu innan og utan sjúkrastofnana. Þetta er niðurstaða starfshóps sem heilbrigðisráðherra skipaði til að fjalla um framhaldsmenntun lækna og framtíðarmönnun læknisstarfa í heilbrigðiskerfinu.

„Það þarf að setja upp skrifstofu fyrir framhaldsmenntun, miðstöð framhaldsmenntunar sem mætti vera fyrir fleira en sérnám fyrir lækna. Það er stóra málið,“ segir Salóme Ásta Arnarsdóttir, formaður félags Heimilislækna og fulltrúi Læknafélagsins í starfshópnum.

Salóme segir að engin viðbrögð séu enn komin við niðurstöðum skýrslunnar en henni var skilað fyrr í mánuðinum. „Vantað hefur að skilgreina hver á að vera kostnaðinn, hver borgar hvað í sérnámi lækna,“ segir Salóme. 

„Stofnanirnar sem ráða sérnámslækna hafa greitt launin, sem er eðlilegt, en hluti af starfi sérnámlækna nýtist ekki deildunum, heldur er hreint og beint nám sem þyrfti að borga úr öðrum sjóði.“ Ástæða þess sé að sumar heilbrigðisstofnanir séu litlar og nefnir hún Heilbrigðisstofnun Austurlands og ýmsar heilsugæslustöðvar. Áætlanir um hver greiði hvað séu því nauðsynlegar.

Salóme segir líka þurfa að skilgreina hver borgi laun kennara, sem og mats- og hæfisnefnda sem nú eru hýstar á Landspítala og heyri undir landlæknisembættið. „Þetta eru grunnatriði því það er nauðsynlegt að veita sérnám hér á landi.“

Hún bendir á að sérnám hafi byggst upp eins og flest á Íslandi; af dugnaði fólks. „Svo vantar rammann, kerfið í kring.“ Með öðrum orðum. Unnið hafi verið að uppbyggingu sérnáms á Íslandi af ákafa en nú sé komið að því að staðla námið.

Fagfélögin haldi utan um marklýsingar sem sé forsenda þess að hægt sé að tala um íslenskt sérnám. Þau standi misjafnlega að því.  „Það er ekki hægt að bjóða upp á sérnám í öllum greinum á Íslandi en félag lyflækna hefur verið mjög virkt og félaga heimilislækna var það fyrsta sem bjó til marklýsingu enda það sérnám það fyrsta sem var viðurkennt hér heima.“  Margar sérnámsbrautir séu í smíðum.

Í frétt heilbrigðisráðuneytisins segir að hópurinn telji nauðsynlegt að efla umgjörð og stjórnsýslu framhaldsmenntunar, ekki síst með skilgreiningu lögbærs yfirvalds og styrkingu gæðaeftirlits og vottunar. Hann segir nauðsynlegt að gæði framhaldsmenntunar standist samanburð við það sem  best þekkist hjá grannþjóðum og sé þannig fýsilegur kostur fyrir íslenska lækna.

En hvenær sér Salóme sérnámið eflt enn frekar hér á landi með niðurstöðurnar í huga? „Ég býst við viðbrögðum strax. Við hlökkum til,“ segir hún.

Hópurinn gerir margvíslegar tillögur um umbætur og leiðir sem miða að því tryggja fullnægjandi mönnun á næstu áratugum. Ákvarðanir um hvaða sérnám standi til boða og í hve miklum mæli hafi grundvallarþýðingu fyrir skipulag og mannafla íslensks heilbrigðiskerfis næstu áratugina. 

Haft er eftir Runólfi Pálssyni, formanni hópsins, á vef heilbrigðisráðuneytisins að það hefði verið kærkomið að ráðast í þessa vinnu. Miklar breytingar hafi orðið á störfum og starfsumhverfi lækna á liðnum árum. Full samstaða hefði verið innan hópsins um niðurstöður vinnunnar.

Í skýrslu starfshópsins segir að stór skref hafi verið stigin í þróun framhaldsmenntunar í sérgreinum lækninga hér á landi undanfarin ári. Ör framþróun hafi samhliða orðið á sérfræðinámi lækna á alþjóðlegum vettvangi. 

Salóme tekur undir það og segir byltingu í hugarfari að horfa á sérnám sem nám en ekki skref til að fylla á reynslubanka.  „Algjörlega nauðsynlegt er að gæðin séu sambærileg því sem er úti.“

Megintillögur hópsins eru sjö talsins.  Nánari skilgreiningu á umgjörð og regluverks um framhaldsnám í sérgreinum, að sett verði á fót skrifstofa eða miðstöð framhaldsmenntunar, tillögu um heildstæða fjármögnun og fjárumsýslu sérnáms og að reynt verði að tryggja að sérnám sem fram fer á Íslandi.

„Setja þarf í forgang að styrkja enn frekar umgjörð og innviði sérnáms í heimilislækningum, styrkja tengsl við sérnám í heimilislækningum á Norðurlöndunum og skilgreina úrræði til að bæta stöðu heilsugæslunnar í dreifbýli, meðal annars með uppbyggingu framhaldsnáms í héraðslækningum,“ segir meðal annars í tillögum starfshópsins. Loks leggur hópurinn til að framkvæmd verði vönduð mannaflagreining og mannaflaspá sem snýr að læknum þar sem horft verði til allra sérgreina og aldurs.

Auk Salóme og Runólfs sátu í starfshópnum Tómas Þór Ágústsson, tilnefndur af Landspítala, Sigurður E. Sigurðsson, tilnefndur af Sjúkrahúsinu á Akureyri, Elínborg Bárðardóttir, tilnefnd af Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, Þórdís Jóna Hrafnkelsdóttir, tilnefnd af Heilbrigðisvísindasviði Háskóla Íslands og Guðrún Ása Björnsdóttir, formaður Félags almennra lækna.

Lesa má skýrsluna hér.

Mynd/skjáskot/heilbrigðisráðuneytið