Sýklalyfjanotkun minnkuð um helming

Markvisst hefur verið dregið úr notkun breiðvirkra sýklalyfja hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins í því skyni að koma í veg fyrir sýklalyfjaónæmi. Íslendingar nota áttfalt meira af tilteknu breiðvirku sýklalyfi en Svíar.
 

Stjórnvöld lýstu því yfir í vikunnni að Ísland hygðist vera í farabroddi í aðgerðum til að draga úr útbreiðslu sýklalyfjaónæmis. Ráðast á í aðgerðir til að draga úr útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería hér á landi í matvælum. Þótt umtalsvert minni notkun sýklalyfja hafi verið í dýrum hér á landi en víða annars staðar nota Íslendingar sjálfir býsna mikið af sýklalyfjum. Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins hóf fyrir rúmum tveimur árum átak í skynsamlegri notkun sýklalyfja.

„Við höfum séð ákveðna þróun í ónæmi í tilteknum bakteríum á Íslandi,“ segir Jón Steinar Jónsson, yfirlæknir á Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu.

Jón segir einkum breiðvirk sýklalyf geta leitt af sér ónæmar bakteríur. 

„Til að mynda eitt breiðvirkt lyf það er notað átta sinnum meira hér heldur en í Svíþjóð t.d. og annað breiðvirkt lyf sem við notum talsvert mikið á Íslandi, fjórum sinnum meira en í Svíþjóð. Þannig að við erum nota ekki meira af lyfjum heldur miklu meira af tilteknum breiðvirkum lyfjum,“ segir Jón.

Því hafa heilsugæslulæknar verið hvattir til að draga úr ávísunum á breiðvirk lyf á borð við Augmentin. Átta þúsund ávísanir voru 2016, þeim fækkaði í 6000 árið eftir eða um tuttugu og tvö prósent. Fyrstu tíu mánuði ársins í fyrra voru fjögur þúsund ávísanir og fækkaði þeim um tuttugu og sjö prósent miðað við sama tímabil árið áður.

Sjá nánar frétt og viðtal við Jón Steinar Jónsson á ruv.is